Gamanþáttaröðin, Ligeglad sem sýnd var á Rúv síðasta vetur við góðar undirtektir hlaut ekki náð fyrir augum úthlutunarnefndar Kvikmyndasjóðs Íslands en framleiðendur þáttanna höfðu sótt um styrk fyrir gerð á seríu tvö.
Rúv hafði þegar tryggt sér sýningarrétt á næstu seríu og stefnan var sett á að sýna hana strax á nýju ári.
Sjá einnig: Nýir grínþættir á RÚV sagðir fara yfir strikið: „Fyndnasta sem ég hef séð í íslensku sjónvarpi“
Ljóst er að aðdáendur Ligeglad þurfa að bíða aðeins lengur en Arnór Pálmi Arnarsson, leikstjóri, segir í samtali við Nútímann að forsenda fyrir gerð þáttanna hafi verið styrkur frá kvikmyndasjóði sem ekki fékkst að þessu sinni.
„Við erum ekkert hætt og við ætlum að gera þessa seríu en það verður því miður ekki núna í vetur,“ segir Arnór.
Þetta er auðvitað svekkjandi en við munum sækja aftur um á næsta ári.
Sería tvö á að gerast á Spáni og segir Arnór að stefnt sé á að klára hana í september 2018, ef styrkur fæst í næstu úthlutun. Hann segir jafnframt að nauðsynlegt sé að stækka sjóðinn.
„Þessi sjóður er pínu flöskuháls vegna þess hve fjársveltur hann er,“ segir Arnór sem hvetur stjórnvöld til að bæta stöðu sjóðsins.