Auglýsing

Lilja Katrín grét með forsetanum í eldhúsinu, tilfinningaflóðið braust út þegar hann birtist

Lilja Katrín Gunnarsdóttir grét gleðitárum þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, birtist í dyragættinni heima hjá henni rétt undir lok sólarhrings bökunarmaraþons hennar til styrktar Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk með krabbamein. Guðni varð sjálfur klökkur vegna viðbragðanna. Lilja er afar þakklát fyrir allan þann stuðning sem hún fékk en alls söfnuðust 400 þúsund krónur.

Þetta kemur fram í pistli sem Lilja Katrín birti eftir maraþonið. Vísir greindi frá. 

Sjá einnig: Bakar í sólarhring, verður skrýtið en skemmtilegt að fá ókunnuga í heimsókn í köku um nóttina

Hér má lesa brot úr pistli Lilju Katrínar:

Rétt eftir 11 var komið að síðustu sortinni. Ég átti erfitt með að lesa uppskriftina sem ég hafði hripað niður á blað. Sveimaði um eldhúsið í móki og týndi til hveiti, púðursykur, lyftiduft og haframjöl eftir minni. Allt í einu heyrði ég einhvern tala um merkilegan gest sem væri mættur. Ég leit út um gluggann og sá bifreið sem ég hafði oft séð í gegnum tíðina.

Og allt í einu gekk forseti Íslands, Guðni Th Jóhannesson inn í litla eldhúsið mitt í Melgerði 21. Hann brosti og þakkaði mér fyrir og þá brutust allt í einu allar þessar uppsöfnuðu tilfinningar út, skrifar Lilja Katrín. 

Ég bara fór að hágráta svo ég segi það hreint út. Ég gróf andlit mitt í höndum mínum og reyndi að hafa hemil á þessu tilfinningaflóði án árangurs. En er ég leit upp aftur á forseta vor sá ég að hann var líka farinn að gráta. Þá grét ég bara enn meira, hló síðan aðeins og bauð honum upp á kaffi.

Mér finnst enn mjög súrrealískt að ég hafi staðið með forsetanum í eldhúsinu mínu og við höfum grátið saman út af kökubakstri! Ég met það mikils að hann hafi séð sér fært að heimsækja okkur í Melgerði með sína þægilegu nærveru. Hann gaf sér tíma til að fræðast um Kraftur-stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur og spjalla við gesti. Þetta var virkilega fallegur endapunktur á sólarhringsmaraþoni.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing