Lilja Katrín Gunnarsdóttir hefur verið ráðin ritstjóri Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., sem meðal annars á og rekur DV og DV.is. Þetta kemur fram í tilkynningu frá DV.
Lilja er annar tveggja ritstjóra sem ráðnir verða til félagsins. Í tilkynningu DV segir um Lilju að hún hafi starfað í fjölmiðlum síðustu fimmtán árin. Hún hóf ferilinn á Fréttablaðinu og hefur meðal annars verið ritstjóri Séð og Heyrt, umsjónarmaður innblaðs Fréttablaðsins og Lífsins á Vísi og vefstjóri Mannlífs. Einnig hefur hún unnið sem dagskrárgerðarkona í Íslandi í dag og starfað sem kynningarstjóri framleiðslufyrirtækisins Sagafilm. Hún er með BA gráðu í leiklist fyrir sjónvarp og kvikmyndir og hefur leikið í sjónvarpi, talsett auglýsingar, skrifað handrit að gamanþáttum og samið einleik.
Lilja mun vinna náið með Guðmundi Ragnari Einarssyni, markaðs- og þróunarstjóra DV, að þróun DV og undirmiðla. Einar Þór Sigurðsson verður áfram aðstoðarritstjóri Frjálsrar fjölmiðlunar ehf.
Rúmur mánuður er frá því að Kristjón Kormákur Guðjónsson sagði upp störfum sem aðalritstjóri DV og gekk til liðs við Hringbraut.
Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar segir að það sé mikill fengur fyrir félagið að fá Lilju Katrínu í ritstjórnarstólinn. Bæði sé hún reynslumikil í fjölmiðlum og hafi skýra sýn á hvert skuli stefna með miðla félagsins. „Við bjóðum hana velkomna til starfa, en framundan eru spennandi tímar hjá félaginu,“ segir Karl.