Árið 1918 var einstaklega viðburðarríkt ár í íslandssögunni. Það var árið sem að frostaveturinn mikli gekk yfir og kvaldi fátæka þjóð yfir vetrarmánuðina. Í október sama ár gaus Katla, og olli miklum jökulhlaupum og gjóskufalli. Einungis um mánuði síðar barst svo til landsins spánska veikin, sem að varð um 500 manns að bana.
Það var fyrir nákvæmlega 100 árum síðan í dag, sem að Morgunblaðið greindi frá öðru andláti íslendings af völdum veikinnar.
Annað dauðsfallið úr afleiðingum inflúenzunnar kom fyrir í fyrradag, ung stúlka, dóttir Guðm. Kristjánssonar skipstjóra.
Í sjötta tölublaði Morgunblaðsins, sem að kom út miðvikudaginn 6. nóvember 1918, má sjá margar sláandi fregnir af áhrifum „inflúenzunnar,“ en svo var spánska veikin kölluð í blaðinu. Má þar nefna lokanir á Menntaskólanum, Iðnskólanum, og hlé var gert á kennslu í Háskólanum. Einnig er greint frá því að hlé hafi verið gert á prentun Morgunblaðsins, og á tímarit.is eru engin tölublöð Morgunblaðsins gefin út frá sjöunda nóvember til sextánda nóvember. Á Akranesi var ástandið ekki gott.
Á Akranesi liggur nú allt í einni kássu í inflúenzu.
Það var því heldur niðurdrepandi að þessu sinni að drepa niður í 100 ára tölublað Morgunblaðsins, en með því að skoða gamalt fréttaefni má fá ótrúlega innsýn í fortíðina.