Sjálfstæðisflokkurinn fengi kjörna 22 þingmenn ef kosið væri nú. Það er þremur þingmönnum fleiri en hann fékk í alþingiskosningunum 2013 og yrði flokkurinn sá stærsti á landinu. Þetta kemur fram í nýrri könnun Fréttablaðsins í dag.
Síðasta könnun Fréttablaðsins var gerð í október. Þetta er fyrsta könnunin sem er gerð eftir að niðurstaða skuldaleiðréttingarnar var kynnt og hefur hún enn sem komið er lítil mælanleg áhrif.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur í stað milli kannana, fer úr 30,3 prósentum í 32,9 prósent. Það er varla mælanlegur munur miðað við skekkjumörk upp á 2,5 prósent.
Framsóknarflokkurinn eykur fylgi sitt lítillega milli kannana, fer úr 8,7 prósentum í 12,8 prósent.
Minnihlutaflokkarnir ýmist standa í stað eða tapa litlu fylgi milli kannana.
Björt framtíð var með 10,6 prósent og mælist jafn stór í dag með 12,6 prósent fylgi. Sömu sögu er að segja af Pírötum, sem mældust með 10,1 prósent í október og mælast með 9,2 prósent nú.
Samfylkingin og Vinstri græn tapa örlitlu fylgi. Samfylkingin mældist með 23,1 prósent í október en mælist með 19,2% prósent nú. Vinstri græn mældust með 13,1 prósent í október en mælast með 9,7 prósent nú.