Tvö ljón, tvö tígrisdýr og einn jagúar sluppu úr dýragarði í Lünebach í Þýskalandi í morgun. Dýrin fundust upp úr hádegi í dag og var þeim komið aftur í dýragarðinn. Í tilkynningu frá lögreglu var fólki ráðlagt að halda sig innandyra á meðan leitin stóð yfir.
Mikil leit var sett af stað á svæðinu til þess að finna kattardýrin fimm. Björn sem slapp einnig úr garðinum var skotinn til bana stuttu síðar.
Fjölmiðlar í Þýskalandi greindu frá því að dýrin hafi sloppið úr garðinum eftir óveður og flóð í nótt sem olli skemmdum á girðingum garðsins. Lögreglu- og slökkviliðsfólk leiddi leitina en dýrin fundust með hjálp frá dróna.
Dýragarðurinn sem um er ræðir heitir Eifel en þar eru um 400 dýr til sýnis.