Hópur sem kallar sig Tramps Against Trump hefur lofað hverjum þeim sem kýs einhvern annan en Donald Trump í væntanlegum forsetakosningum í Bandaríkjunum nektarmynd.
Kosningabaráttan á Íslandi harðnar með hverjum deginum en í Bandaríkjunum verður hún bara skrýtnari og skrýtnari. Donald Trump er á miklu flugi þessa dagana en Tramps Against Trump vilja sporna við uppgangi milljarðamæringsins.
Í frétt Daily Dot um málið kemur fram að samtökin sendi myndir af öllum kynjum og kynþáttum. Talsmaður samtakanna sagði í samtali við vefmiðilinn Motherboard að uppátækið sé leið til að fá ungt fólk á kjörstað.
Hvað fílar ungt fólk í dag? Allsbert fólk á internetinu. Þannig að við ætlum að nota allsbert fólk á internetinu til að knýja fram breytingar og gera fólk spennt fyrir einhverju.
Tramps Against Trump styður engan sérstakan frambjóðanda en hvetur fólk til að kjósa alla aðra en Trump. Til að fá nektarmynd senda þarf fólk að fara á kjörstað og senda hópnum skilaboð. Hópurinn mælir ekki með því að fólk taki myndir inni í kjörklefunum þar sem það er ólöglegt í sumum ríkjum Bandaríkjanna.
Þá getur fólk tekið þátt í baráttunni með því að útvega samtökunum nektarmynd af sjálfu sér.