Logi Geirsson, einkaþjálfari og fyrrverandi atvinnumaður í handbolta, hefur unnið að appi síðustu ár sem á að bæta heilsu fólks í heiminum. Hann hefur fulla trú á að ná langt með það. Þetta kemur fram í viðtali við Loga í DV í dag.
Í DV kemur fram að Logi hafi hitt fjárfesta í Silicon Valley í Kaliforníu. „Ég ætlaði að sigra heiminn og það var mjög eftirminnilegt,“ segir hann í DV.
Ég fór í höfuðstöðvar Google og hitti þar fjárfesta. Ég fór út um allt á mínum eigin verðleikum. Hafði engar tengingar, svipað og ég gerði í handboltanum.
Ferðin var eftirminnileg, að sögn Loga. „Ég var bara með söluræðu: „Þetta er ofboðslega flott og þetta er að fara að virka, viltu kaupa þetta?“ Þetta var mjög eftirminnileg ferð sem þroskaði mig mjög mikið,“ segir hann.
„Mig langar svo að færa mig yfir í þetta, að vera skapandi og búa til snjallsímaforrit. En BS-ritgerðin mín fjallaði einmitt um snjallsímaforrit.“
Logi segir í DV að allt sé enn í vinnslu í Kaliforníu og lofar að appið komi út á þessu ári. „Fólk mun sjá snjallsímaforrit frá mér á þessu ári. Ég er búinn að lofa þessu í tvö ár, en forritið kemur 100 prósent á þessu ári.“