Tónlistarmaðurinn Logi Pedro Stefánsson hefur hvatt kvikmyndahús á Íslandi að taka afstöðu gegn kúgun og ofbeldi í Hollywood með því að sniðganga nýju Expendables kvikmyndina.
Bandaríski leikarinn Terry Crews neitaði að leika í myndinni sem er sú fjórða í seríunni. Hann sagði frá því á dögunum að framleiðandi myndarinnar hafi hótað honum öllu illu ef að hann myndi ekki draga til baka ásakanir sínar á hendur Adam Venit, umboðsmanni í Hollywood, vegna kynferðisáreitis.
„Framleiðandi myndarinnar hringdi í umboðsmann minn og sagði að við myndum draga kæruna til baka eða að ég myndi ekki fá að leika í myndinni, og ef að við myndum ekki draga kæruna til baka yrðu vandræði,” sagði Crews fyrir rétti.
Crews sakaði Venit um að grípa tvisvar í kynfæri sín þegar hann var viðstaddur veislu með konu sinni árið 2016. Hann segist vilja taka afstöðu gegn kerfi sem sækist eftir því að þagga niður í fórnarlömbum kynferðislegrar áreitni og vernda ofbeldismenn með því að sniðganga myndina.
Logi Pedro tjáði sig um málið á Twitter síðu sinni í morgun og hvetur kvikmyndafyrirtæki á landinu til þess að taka skýra afstöðu í málinu.
Hver er með Expendables myndirnar á Íslandi? Hér er hægt að taka skýra afstöðu. @sambioin @Sena_is https://t.co/gvVIZHDa4u
— Logi Pedro (@logipedro101) June 30, 2018
Í samtali við Nútímann segir Logi að það sé skýrt að kvikmyndahús á Íslandi geti haft áhrif.
„Þau geta lagt sitt á vogarskálarnar og neitað að taka þátt í svona kúgun með því að taka myndirnar ekki til sýninga. Það eru peningarnir sem tala í þessu,“ segir Logi.
Geir Gunnarsson markaðsstjóri hjá framleiðslufyrirtækinu Myndform, sem hefur hingað til verið dreifingaraðili Expendables myndanna á Íslandi, segir í samtali við Nútímann að engin ákvörðun hafi verið tekin um hvort Expendables 4 verði sýnd á þeirra vegum.
https://www.youtube.com/watch?v=u0hzRU5omeY