Fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann segir að hugtakið „sokkinn kostnaður“ eigi betur við borgarfulltrúann Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur en skólagöngu barna hælisleitenda. Þetta sagði Logi í pistli sínum í Fréttablaðinu í dag.
Sveinbjörg Birna sagði í viðtali á Útvarpi Sögu í vikunni að það felist „sokkinn kostnaður“ í því fyrir Reykjavíkurborg að taka við börnum hælisleitenda í grunnskóla borgarinnar. Þá velti hún fyrir sér hvort eðlilegt væri að börn hælisleitenda yrðu sett í sérstakan skóla þar til ákvörðun um hvort fjölskyldur þeirra fái dvalarleyfi liggi fyrir.
Logi segir í pistli sínum að ummæli Sveinbjargar séu ótrúleg og segir einnig ótrúlegt að hlustendur Útvarps Sögu kinki kolli yfir þessu. „Eins og það sé bara fullkomlega eðlilegt að taka fólk í neyð og setja það bara eitthvert annað. Svo það trufli okkur ekki og sé ekki fyrir,“ segir hann.
Ef ég ætti að nota hugtakið „sokkinn kostnaður“ um eitthvað þá væri það um borgarfulltrúann sem lét þetta út úr sér og skoðanasystkin hennar.
Logi segist ætla að leyfa sér að vera ósammála Sveinbjörgu. „Gæti verið að börnin okkar hefðu gott af því að kynnast börnum úr öðrum menningarheimi? Er ekki líklegt að þau gætu lært ýmislegt af því sem þau myndu annars ekki gera. Það myndi jafnvel gera þau víðsýnni og ólíklegri til að láta svona út úr sér. Ég hallast að því,“ segir hann.
Sjá einnig: Popplag Sveinbjargar í Kastljósinu: Ég hefði átt að Gúggla betur …Gerði það ekki!
Hann óttast að nú eigi að leika sama leikinn í borginni og gert var í síðustu kosningum. „Spila inn á ótta við útlendinga sem komi hingað og spilli menntun barna okkar, taki frá okkur vinnuna og lifi eins og blómi í eggi í félagslega kerfinu,“ segir Logi í pistlinum.
„Af hverju ætti ekki að gera þetta? Þetta gekk þokkalega í síðustu borgarstjórnarkosningum og líka hjá Trump. Freistingin er fyrir hendi, að rækta atkvæði í jarðvegi ótta og andúðar.“