Ekki sér fyrir endann á deilu 365 miðla og sjónvarpsmannsins Loga Bergmanns Eiðssonar sem réð sig til starfa hjá Árvakri fyrr í þessum mánuði. Eins og fjölmiðlar greindu frá fékk 365 sett lögbann á störf Loga. Í bréfi sem lögmaður 365 sendi fjölmiðlum í dag er Logi og Blaðamannafélagið, sem gagnrýndi ákvörðun 365 gagnrýnt harðlega.
Í bréfinu sem Einar Þór Sverrisson lögmaður fyrir hönd 365 miðla skirfar segir að Logi hafi þann 9. október sent sms og óskað eftir fundi sem allra fyrst. Þar hafi hann afhent uppsagnarbréf sitt og óskaði eftir að fá að láta af störfum án tafar. Bréfið var móttekið, en því hafnað að hann gæti látið af störfum um leið.
Sjá einnig: Logi Bergmann ætlaði að mæta aftur í vinnu á Stöð 2 og vinna uppsagnarfrestinn en því var hafnað
Einar segist í framhaldinu hafa verið í samskiptum við Loga og lögmann hans þar sem því var komið skýrt til skila að hann gæti ekki hafið störf hjá keppinaut 365 strax daginn eftir uppsögn. „Í stuttu máli má segja að frekjan og yfirgangurinn af hálfu Loga var svo yfirgengilegur að engin leið var til að ná ásættanlegri niðurstöðu í málið.“
Lögmaðurinn segir vinnubrögð Blaðamannafélags Íslands í málinu hafa verið döpur. Hann segir stjórn þess hafi ekki kynnt sér málið áður en ályktun þess var send á alla fjölmiðla. Vinnbrögðin séu stjórninni og formanni þess til háborinnar skammar.