Leit stendur enn yfir að Birnu Brjánsdóttur, tvítugrar konu sem sást síðast til aðfaranótt laugardags.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur borist gríðarlega margar ábendingar í tengslum við hvarf hennar síðustu tvo sólarhringa og er lögreglan þakklát fyrir það.
Lögreglan vinnur úr öllum ábendingum sem berast
Það sem við vitum um málið eftir daginn
Tæknideild lögreglunnnar á höfuðborgarsvæðinu lagði í dag hald á rauða Kio Rio bíl í Kópavogi. Heimildir Vísis herma að erlendir ríkisborgarar hafi tekið bílinn á leigu á föstudaginn og skilað honum á laugardag. Fram hefur komið að rauð Kia Rio bifreið sást á eftirlitsmyndavél á Laugaveginum um það leyti sem Birna sást síðast í eftirlitsmyndavél, eða kl. 5.25 aðfaranótt laugardags.
Lögregla staðfesti að skóparið, svartir uppreimaðir Dr. Marten skór, sem fannst við Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi sé í eigu Birnu. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sagði í samtali við Vísi að lögreglan hefði fengið til sín einstakling sem taldi sig geta staðfest að um skó Birnu væri að ræða.
Vísir telur sig einnig hafa heimildir fyrir því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi undir höndum upptöku af rauðum bíl, líkast til rauðum Kia Rio, sem náðist á eftirlitsmyndavél áhaldageymslu Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar klukkan 5:53 á laugardagsmorgun. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni sem stýrir rannsókn málsins, staðfestir við Vísi að lögregla hafi myndskeið frá þessum tíma og svæði undir höndum. Samkvæmt heimildum Vísis virðist af myndskeiðinu sem ökumanni bifreiðarinnar bregði þegar hann verður var við að ljós kviknar á eftirlitsmyndavélinni þegar hún greinir hreyfingu. Má merkja það á aksturslagi bifreiðarinnar sem ekið er skyndilega á brott.
Frá hádegi hefur leit verið háttað þannig að björgunarsveitarfólk klárar sín leitarsvæði á athafnasvæðinu við Hvaleyrarlón í Hafnarfirði og fer að því loknu til leitar í Urriðaholti í Garðabær. Þar var leitað án árangurs í nótt en nú er leitað í dagsbirtu.
Að sögn Gríms fékk lögregla dómsúrskurð í dag til að bera saman gögn um farsímanotkun á svæðinu þar sem Birna sást síðast og svo í Hafnarfirði. Verið er að vinna úr gögnunum. Með Facebook var hægt að staðsetja síma Birnu á Sæbraut kl. 5.30 aðfaranótt laugardags.
Tvær þyrlur hafa verið notaðar við leitina í dag. Önnur er í eigu Landhelgisgæslunnar og hin frá Þyrluþjónustunni. Þyrlurnar hafa meðal annars sveimað yfir hafnarsvæðinu í Hafnarfirði og Urriðaholti.
Einnig var leitað við Flatahraun í Hafnarfirði og Urriðakotsvatn. Leitarsvæðið var útvíkkað og var leitað frá Garðakirkju og suður undir Straumsvík. Fjörur voru gegnar og leitað er á strandlengjunni með bátum.
Ákveðið hefur verið að fresta sýningum á þáttaröðinni Horfin (e. The Missing) sem áttu að hefjast á RÚV í kvöld um óákveðinn tíma. Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, sagði að viðfangsefni þáttaraðarinnar kunni að minna óþægilega mikið á sviplegt hvarf Birnu og vilji RÚV sýna aðstandendum og öðrum sem eiga um sárt að binda þá tillitssemi að seinka sýningum.
Ungt fólk hefur skipt út myndum af sér á samfélagsmiðlinum Tinder til að vekja athygli á hvarfi Birnu. Eitt af því sem er í forangi hjá lögreglu við rannsókn málsins er að reyna að komast inn á Tinder-aðgang Birnu til að sjá hvort hún hafi verið í samskiptum við einhvern þar nóttina sem hún hvarf.
Viðbragðsteymi Rauða krossins hefur verið virkjað og veita meðlmir þess sálrænan stuðning til aðstandenda, vina, ættingja og þeirra sem taka þátt í leitinni. Hér má lesa um hjálparsímann, 1717.