Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sló svo sannarlega Íslandsmet í síðustu viku þegar hún lagði hald á tæplega 6 kíló af metamfetamíni sem gengur undir nafninu „kristall“ en um er að ræða baneitraða og mjög sterka útgáfu af amfetamíni. Fíkniefnið kemur í flísum sem minna mikið á kristalla en það er svo mulið og annað hvort tekið í nefið eða reykt.
Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni þá voru sex handteknir í viðamiklum aðgerðum lögreglu í þágu málsins og voru fimm þeirra í framhaldinu úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 6. nóvember. Einum þeirra hefur verið sleppt úr haldi. Framkvæmdar hafa verið nokkrar húsleitir á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins. Um er að ræða stærstu haldlagningu á kristal metamfetamíni í einu máli hérlendis, en það fannst í bifreið sem var flutt sjóleiðis til landsins.
Rannsókn málsins, sem snýr að stórfelldu fíkniefnabroti og skipulagðri brotastarfsemi, miðar vel. Við aðgerðirnar naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar Tollsins, embættis héraðssaksóknara og sérsveitar ríkislögreglustjóra.