Lögreglan í Blackpool greindi í nótt frá því að maður sem rændi veitingastað í borginni hefði fundist. Málið vakti mikla athygli í netheimum þar sem maðurinn sem lýst var eftir þykir afskaplega líkur bandaríska leikaranum David Schwimmer sem sló í gegn á sínum tíma sem Ross í sjónvarpsþáttunum Friends.
Lögreglan lýsti eftir manninum á samfélagsmiðlum í vikunni og lét fylgja með mynd úr öryggismyndavél veitingastaðarins. Athugasemdirnar byrjuðu fljótt að flæða inn þar sem fólk benti þeim á að þarna væri á ferðinni Ross Geller. Margir stórskemmtilegir brandarar tengdir þáttunum sívinsælu birtust í athugasemdarkerfi lögreglunnar.
Sjá einnig: David Schwimmer gefur fjarvistarsönnun vegna ránsins í Blackpool: „Eins og þið sjáið þá var ég í New York“
Í færslu lögreglunnar þar sem tilkynnt er að maðurinn sé fundinn er einnig slegið á létta strengi þar sem vísað er í talsmáta Chandlers Bing, vinar Ross úr þáttunum.
„Gætum við VERIÐ þakklátari fyrir viðtökurnar við myndinni úr eftirlitsmyndavélinni eftir þjófnaðinn á veitingastaðnum í Blackpool?“ spyr lögreglan í færslunni sem ætti að vekja lukku meðal dyggra aðdáenda þáttanna.
Could we BE any more overwhelmed with the response to our CCTV appeal after a theft at a restaurant in Blackpool? Most importantly, we're now satisfied we've identified the man in the still & our enquiries are very much continuing. Huge thanks for sharing it with your Friends ? pic.twitter.com/61V2V4KMuu
— Blackpool Police (@BlackpoolPolice) October 25, 2018