„Undanfarnar nætur hafa verið unnin skemmdarverk á bílum lögreglu þar sem þeim hefur verið lagt í bifreiðastæði aftan við Brekkustíg 39 á milli verkefna,“ skrifar lögreglan á Suðurnesjum á Facebook-síðu sína í morgunsárið. Svo virðist sem að einhver hafi tekið sig til og stórskemmt bifreiðar á vegum embættisins.
Lögreglan á Suðurnesjum birtir myndir af skemmdarverkunum á Facebook-síðunni og er tekið fram að búið er að brjóta hliðarrúður í þremur bifreiðum líkt og má sjá á meðfylgjandi myndum. Eins og gefur að skilja óskar lögreglan eftir því að þeir sem búa yfir upplýsingum um þessi skemmdarverk gefi sig fram.
Hægt er að hafa samband við Neyðarlínuna í síma 112 og óska eftir lögreglunni á Suðurnesjum.
„Ef einhver hefur upplýsingar um málið þá má hinn sami endilega vera í sambandi við okkur.“