Eitt kynferðisbrot er til rannsóknar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum eftir verslunarmannahelgina. Þetta kemur fram í færslu lögreglunnar í Eyjum á Facebook.
Kæra var lögð fram aðfaranótt mánudags og atvikið átti sér stað skömmu eftir miðnætti. Um tengda aðila er að ræða og fékk þolandi viðeigandi aðstoð, samkvæmt færslu lögreglunnar.
Sakborningur var handtekinn skömmu eftir að tilkynning barst lögreglu. Málið telst upplýst og rannsókn vel á veg komin.
„Í tilefni af fréttaumfjöllun um kynferðisbrot á hátíðinni upplýsist að ekki var um kynferðisbrot að ræða í því tilviki þar sem maður var sleginn illa í andlit og höfuð heldur ótta við mögulegt brot,“ segir í færslunni.