Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér yfirlýsingu á Facebook í gærkvöldi þar sem hún varar við símasvindlurum sem hringja í fólk frá erlendu símanúmeri. Lögreglan hefur fengið fjölda ábendinga frá fólki sem fengið hefur símtal frá furðulegum númerum. Allir hafa sömu sögu að segja, það er hringt og skellt á nær samstundis.
Hringingarnar gætu haft þann tilgang einan að hafa fé af fólki sem svarar eða hringir til baka.“Góð regla er að svara ekki þegar hringt er úr númerum sem þið ekki kannist við né hringja til baka,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Símanúmerið sem hringt er úr hefst á svæðisnúmerinu 881, en það númer er ekki tengt ríki, heldur er þetta alþjóðlegt svæðisnúmer gervihnattasamskiptatækja.