Furðufréttir tengdar stjórnmálum má finna víða. Ekki bara á Íslandi.
Meirihluti lögreglumanna ásamt yfirmönnum í lögreglunni hafa sagt upp störfum sínum í bænum Parma í Mossouri í Bandaríkjunum eftir að nýr bæjarstjóri var kjörinn. Þetta kemur fram á vef Huffington Post.
Sjá einnig: Níu svakalegustu tístin um hversdagslegt misrétti
Sú sem tók við embætti á þriðjudag heitir Tyrus Byrd og hún er fyrsta konan til að gegna embættinu. Hún hafði betur gegn Randall Ramsay, sitjandi bæjarstjóra, í kosningum á dögunum en hann hafði verið bæjarstjóri í hvorki meira né minna en 37 ár.
Málið er allt hið furðulegasta en í frétt á vef fréttastofunnar KFVS er haft eftir Ramsay að lögreglumennirnir hafi sagt upp vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af öryggi bæjarins. Lögmaður bæjarins sagði einnig starfi sínu lausu ásamt fleiri embættismönnum.
Bæjarbúar virðast þó ekki áhyggjufullir og í samtali við KFVS er haft eftir Mörthu Miller, íbúa í Parma, að það sé skítt að horfa upp á lögreglumennina hætta án þess að gefa henni tækifæri til að sanna sig.
„En ég held að þetta skipti engu máli. Það þarf ekki sex lögreglumenn til að gæta öryggis 740 bæjarbúa,“ sagði hún.
Eftir að Byrd tók við embættinu sagðist hún hlakka til að koma hlutum í röð og reglu í bænum.