Stjórnvöld í Danmörku hafa nú til skoðunar nýtt frumvarp sem veitir yfirvöldum heimild til að leggja hald á verðmæti sem flóttafólk kann að hafa í fórum sínum við komuna til landsins.
Frumvarpið veitir dönskum yfirvöldum vald til að leita í fatnaði og farangri hælisleitenda, og annarra flóttamanna sem hafa ekki dvalarleyfi í Danmörku, með það að markmiði að finna eignir sem kunna að mæta kostnaði. Þetta kemur fram í umfjöllun um málið á mbl.is.
Tillögurnar hafa verið gagnrýndar harðlega og hafa sumir vísað til „eignaupptöku“ nasista í seinni heimstyrjöldinni og spurt hvort stjórnvöld hyggist fjarlægja gullfyllingar úr tönnum flóttafólksins.
Árni Helgason lögmaður bendir á á Facebook-síðu sinni að mjög svipaðar heimildir séu í útlendingalögum hér á landi — að almennt sé athugað hvað hælisleitendur og útlendingar, sem koma hingað án þess að vera með dvalarleyfi, eru með á sér, t.d. af peningum.
Í 34. grein útlendingalaganna kemur fram að krefja skuli útlending um endurgreiðslu kostnaðar af réttaraðstoð að hluta til eða að öllu leyti ef hann hefur ráð á því. Þarna er átt við kostnað við vinnu lögmanns sem hefur verið skipaður í máli umsækjanda.
Í 56. grein laganna kemur fram að útlendingur skuli greiða kostnað af brottför sinni og kostnað sem hlýst af því ef lögregla þarf að fylgja viðkomandi úr landi. Það má gera fjárnám vegna kröfunnar og hún getur auk þess verið grundvöllur frávísunar ef viðkomandi kemur síðar til landsins.
Lögreglunni er einnig heimilt að leggja hald á farseðla sem finnast í fórum útlendingsins til notkunar við brottför og fjármuni til greiðslu á kröfu vegna kostnaðar við brottför og gæslu.
Árni segir á Facebook að í svona málum geti kostnaðurinn hæglega verið nokkur hundruð þúsund krónur og jafnvel meira. Hann bendir einnig á að hann viti ekki til þess að þessum ákvæðum hafi verið beitt.
Ég veit ekki til þess að þessum ákvæðum um að endurheimta kostnað hafi verið beitt, a.m.k. er það sjaldgæft, en þetta er klárlega til staðar hér á landi. Spurning hvort þetta vekji sömu viðbrögð hér og í Danmörku?
Loks bendir Árni á að þetta eigi ekki við um Dyflinnar-mál, þ.e. þegar hælisleitandi hefur sótt um hæli annars staðar og er endursendur þangað.