Auglýsing

MA dregur sig úr Söngkeppni framhaldsskólanna, boðar nýja söngkeppni fyrir norðan

Menntaskólinn á Akureyri hefur dregið sig úr Söngkeppni framhaldsskólanna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá nemendafélagi skólans. Yfirlýsingin kemur í kjölfarið á því að fjórir skólar drógu sig úr söngkeppninni í dag vegna breytinga á keppninni. Nemendafélag MA boðar nýja söngkeppni fyrir norðan.

Sjá einnig: Fjórir skólar draga sig úr Söngkeppni framhaldsskólanna, ósáttir við breytingar

Stærsta breytingin á keppninni í ár er sú að 12 skólar verða valdir af dómnefnd til þátttöku í aðalkeppninni, sem verður í beinni útsendingu á RÚV. Skólar sem senda inn atriði greiða þátttökugjöld óháð því hvort þeir komist í keppnina eða ekki.

Í yfirlýsingunni frá nemendafélagi MA kemur fram að stjórn félagsins telur breytingarnar sem hafa orðið á keppninni ekki til hagsbóta. „Hvorki fyrir keppendur né framhaldsskólanemanda almennt,“ segir þar.

Við sjáum því ekki hag okkar að þessu sinni í því að taka þátt en fyriráætlanir eru um að halda okkar eigin keppni hér fyrir norðan, ásamt VMA og fleiri skólum sem hyggjast ekki taka þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna.

Verkmenntaskólinn á Akureyri dró sig einnig úr keppni á dögunum. Í kjölfarið lýsti þó sigurvegari söngkeppninnar þar vilja á að taka þátt í aðalkeppninni og Samband íslenskra framhaldsskólanema hyggst hjálpa henni við það.

Steinunn Ólína Hafliðadóttir, formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema (SÍF), sagði í samtali við Nútímann í vikunni að komið hafi verið á fót styrktarnefnd til að hjálpa skólum að safna fyrir þátttöku í keppninni. Allir skólar fái að taka þátt í sérstakri æfingarhelgi þar sem dómarar verða á svæðinu og verður frammistaða þar á meðal þess sem tekið verður til greina þegar atriði verða valin í aðalkeppnina.

Í yfirlýsingu á vef SÍF kemur fram að Söngkeppnin hafi undanfarin ár verið rekin með miklu tapi.

„Söngkeppnin hefur síðastliðin ár verið unnin í samstarfi á milli SagaFilm og SÍF. Í upphafi á skipulagningu söngkeppninnar 2016 var framkvæmdarstjórn SÍF tjáð að SagaFilm gæti ekki staðið undir kostnaði keppninnar ef hún kæmi ár eftir ár í milljóna mínus. Breytt fyrirkomulag keppninnar er því vegna óskar okkar um að halda keppninni lifandi,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir að breytingar á þátttökugjaldi séu gerðar til að passa að þessi stökkpallur fyrir unga og efnilega söngvara glatist ekki. Allir skólarnir 30 greiða 40 þúsund króna þátttökugjald sem gefur þeim aðgang að æfingarhelgi SÍF. Þar fá þátttakendur framkomunamskeið frá Glowie, hljómsveitaræfingu, hárgreiðslu og förðun, myndatöku og innslög.

„Við skiljum vel að nemendafélög Framhaldsskólanna eru misvel stæð og hefur framkvæmdarstjórn SÍF því í fyrsta sinn skipað fjáröflunarteymi til að koma til móts við kostnað nemendafélaga við söngkeppnina,“ segir í yfirlýsingunni.

„Okkar markmið er að gera snið keppninnar sjálfbært og straumlínulagað svo að Söngkeppnin geti verið haldin ár eftir ár. Keppnin er, eins og segir, stökkpallur fyrir unga og efnilega söngvara sem eru í þínu nemendafélagi. Við myndum harma það ef að tækifæri líkt og þetta, glatist.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing