Karlmaður á fertugsaldri sem er talinn hafa orðið móður sinni að bana í lok síðasta mánaðar er talinn hættulegur umhverfi sínu og því hefur gæsluvarðhald yfir honum verið framlengt til 28. nóvember. Var þessi ákvörðun tekin á grundvelli almannahagsmuna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem rannsakar andlát konunnar sem var á sjötugsaldri.
Það var á miðnætti þann 24. október sem lögreglu barst tilkyning um málið og héldu viðbragðsaðilar þegar á vettvang, sem var í íbúð fjölbýlishúss í Breiðholti. Strax voru hafnar endurlífgunartilraunir, en þær báru því miður ekki árangur og var konan úrskurðuð látin.