Maðurinn sem féll í Gullfoss á miðvikudag hét Nika Begades. Hann var 22 ára gamall og var frá Georgíu. Nika var búsettur í Reykjanesbæ og hafði stöðu hælisleitanda hér á landi. Hann var einhleypur og barnlaus.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Engar líkur eru taldar á því að maðurinn hafi lifað af fallið og leitin hefur engan árangur borið fram til þessa. Dregið hefur úr leitinni en henni verður haldið áfram í dag með minna sniði en síðustu daga.
„Eins og áður hefur komið fram fann lögreglan vísbendingar um hann út frá bifreið sem fannst á svæðinu og samsvara lýsingar vitna af atburðinum við myndir sem lögregla fékk úr eftirlitsmyndavélum við Gullfoss,“ segir í tilkynningunni.
Sporhundur frá Landsbjörg rakti svo spor úr bílnum upp fyrir útsýnispallana og niður undir ánna. Ekki er vitað nákvæmlega hvað gerðist, en málið er rannsakað sem slys.
Þau sem telja sig hafa séð Mika þarna á svæðinu fyrir slysið beðnir um að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi í gegnum netfangið: sudurland@logreglan.is.
„Leitarskilyrði eru erfið á staðnum þar sem áin er straumþung og djúp jökulá. Gljúfrið sem hún rennur í gegnum er djúpt og skorið og því erfitt og jafnvel ómögulegt yfirferðar á köflum,“ segir í tilkynningunni.
„Saga árinnar í gegnum áranna rás segir að ekki séu miklar líkur á því að hún skili fljótt af sér það sem hún tekur, því gæti slíkt ferli tekið nokkra mánuði og jafnvel ár áður en nokkur merki um mann finnast, ef þá nokkurn tímann.“