Hrafnhildur Kristbjörnsdóttir, tómstunda- og félagsmálafræðingur, fékk ekki viðbrögð við atvinnuumsóknum sínum að loknum háskólanámi fyrr en hún hætti að taka fram í umsókninni að hún væri hreyfihömluð.
Þá fékk hún viðbrögð við nánast hverri einustu og stoppaði síminn ekki í nokkra daga.
„Ég var bæði ánægð og hissa,“ segir í pistli hennar á Tabú.is.
„Ánægð að fá tækifæri á atvinnuviðtali og hissa hvað ég varð fyrir miklum fordómum á atvinnumarkaði. Það virðist skipta litlu máli hvaða menntun ég hef eða hvaða kosti og reynslu ég hef. Ég fæ mun færri tækifæri til að sanna mig og komast áfram í lífinu bara vegna þess eins að ég er fötluð.„
Þegar hún kom í atvinnuviðtal á leikskóla mætti henni leikskólastjóri sem virtist ósátt og vonsvikin.
Ef ég hefði vitað að þú værir fötluð hefði ég nú ekki boðið þér í viðtal.
Í pistlinum segir Hrafnhildur einnig frá því að hún hafi farið á námskeið í gerð ferilskráa nokkrum mánuðum fyrir viðtalið.
„Ég notaði tækifærið og spurði hann að því hvort að mér væri skylt að taka fram að ég sé hreyfihömluð á atvinnuumsókn. Hingað til hefur reynslan verið sú að ég fæ aldrei nein viðbrögð við atvinnuumsóknum þegar ég tek fram að ég sé hreyfihömluð,“ skrifar Hrafnhildur.
„Ef þú tekur ekki fram að þú sért fötluð og mætir í viðtalið [með sýnilega fötlun] gæti atvinnurekandinn upplifað það þannig að þú hafir logið að sér eða vísvitandi falið þetta fyrir sér“ svaraði sá sem hélt námskeiðið.