Útvarpsmaðurinn og sparkspekingurinn Máni Pétursson skilur ekki af hverju Tólfan, stuðningsmannalið íslenska landsliðsins í fótbolta, klæðist eigin treyjum í stað treyju landsliðsins. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Harmageddon í dag. Hlustaðu á brot úr þættinum hér fyrir neðan.
Sjá einnig: Icelandair svaraði kalli Hjörvars Hafliða: „Passið upp á það að þessi mynd verði tekin“
„Mér finnst skrýtið að strákarnir í Tólfunni, sem eru margir toppmenn, séu ekki í landsliðstreyjum þarna. Þeir eru í einhverjum sér Henson-treyjum. Sem mér finnst mjög skrýtið,“ sagði Máni.
Ég væri til í að sjá þá í íslensku landsliðstreyjunum, ekki í einhverjum Henson-treyjum.
Tólfan klæðist treyjum sem eru meðal annars merktar Carlsberg bjór og hafa þær verið seldar meðal annars til að fjármagna starfsemi félagsins. Máni er þó á því að landsliðið sjálft ætti að vera í Henson-treyjum.
„Við getum ekki kvartað yfir því að Aron Jó fari í bandaríska landsliðið á sama tíma og við spilum ekki í Henson,“ sagði Máni.