Auglýsing

Máni lætur Benedikt heyra það vegna hugmynda um að afnema seðla: „Ógeðsleg árás á alþýðuna“

Útvarpsmaðurinn Máni Pétursson, annar stjórnenda Harmageddon á X977, lætur Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra heyra það vegna hugmynda um að afnema 5.000 og 10.000 króna seðla.

Nefnd á vegum fjármálaráðherra leggur til að tíu þúsund og fimm þúsund króna seðlarnir verði teknir úr umferð til að sporna gegn skattsvikum.

Máni segir á Facebook-síðu sinni að aðgerðirnar séu siðlausar og auki tekjur kortafyrirtækja. „Þegar þú kaupir vöru með debet- eða kreditkorti greiðir seljandinn 0,4 til 3,9% til kortafyrirtækisins sem gefur út kortið,“ útskýrir Máni og bætir við að af hverjum 1.000 krónum sem fólk eyði með notkun á greiðslukortum fái Borgun og Kreditkort 4-39 krónur.

Fjármaálaráðherra er með þessari aðgerð að auka tekjur kortafyrirtækja og banka umtalsvert. Ég læt alveg ósagt hversu óheppilegt það er vegna hagsmunatengsla sem leiðtogar þessarar ríkistjórnar hafa við kortafyrirtæki.

Máni segir aðgerðirnar siðlausar séu þær skoðaðar út frá frelsi einstaklingsins. „Sem er orð sem Íslenskir hægrimenn hafa lengi gjaldfellt. Það er í raun verið að gefa bankafyrirtækjum og kortafyrirtækum leyfi til þess að kortleggja alla okkar neyslu,“ segir hann.

„Að halda því fram að þetta sé til þess að koma í veg fyrir skattsvik er síðan í raun og veru ógeðsleg árás á alþýðu þessa lands. Það hefur alveg farið fram hjá mér að eldri borgarinn í einbýlishúsinu sínu sem leigir frænku sinni herbergi á 20 þús sé vandamálið, að píparinn sem lagaði ofnana heima hjá mér og fékk fimm þúsund kall fyrir sé vandamálið. Meira segja gaurinn sem selur félaga mínum kókaín, hann er ekki vandamálið. Það er einmitt enginn þeirra með peningana sína í skattaskjólum þeir eru allir að eyða þeim á íslandi.“

Máni hvetur Viðreisn til að skoða sjávarútvegsfyrirtækin. „[Þau] selja auðlind þjóðarinnar erlendu fyrirtæki sem þeir eiga sjálfir,“ segir hann.

„Eru þeir peningar allir að skila sér til okkar? Kannski væri heldur ekki óvitlaust að skoða aðeins ríkisbókhaldið og sjá hvort það sé nauðsynlegt að hafa alla þessu innmúruðu Íslensku hægrimenn á spenanum. Það er kannski kominn tími til að þeir eins og við almenningur reyni að komast áfram á eigin verðleikum.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing