Innanríkisráðuneytið hefur birt drög að frumvarpi um verulegar breytingar á mannanafnalöggjöfinni á vef sínum. Vísir greinir frá þessu.
Samkvæmt drögunum stendur meðal annars til að leggja niður mannanafnanefnd og mannanafnaskrá, fella úr gildi ákvæði um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn, fella úr gildi ákvæði um hámarksfjölda nafna og fella úr gildi ákvæði um ættarnöfn — því félli bæði á brott vernd eldri ættarnafna og bann við nýjum.
Á vef ráðuneytisins kemur fram að umræða um mannanafnalöggjöfina hafi verið áberandi í samfélaginu.
Hefur því sjónarmiði vaxið ásmegin að réttur manna til að ráða sjálfir nöfnum sínum og barna sinna sé ríkari en hagsmunir samfélagsins að takmarka þennan rétt.
Frumvarpsdrögin fela í sér að gildandi lög um mannanöfn verði felld á brott en í lög um þjóðskrá og almannaskráningu verði færð tiltekin ákvæði um nöfn og skráningu þeirra í þjóðskrá.
Á brott myndu meðal annars falla eftirtalin atriði, samkvæmt frétt á vef innanríkisráðuneytisins:
- Ákvæði um hámarksfjölda nafna.
- Ákvæði um að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli, megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Einu kröfurnar sem gerðar yrðu til eiginnafna væru að þau skyldu vera nafnorð, auðkennd með stórum upphafsstaf og án greinis. Væri eiginnafn af íslenskum uppruna skyldi það falla að íslensku beygingarkerfi en sú krafa væri ekki gerð ef um viðurkennt erlent nafn væri að ræða.
- Ákvæði um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn.
- Ákvæði um að eiginnöfn megi ekki vera þannig að þau geti orðið nafnbera til ama.
- Ákvæði um ættarnöfn, engar takmarkanir yrðu á notkun ættarnafna og því félli bæði á brott vernd eldri ættarnafna og bann við nýjum.
- Ákvæði um takmarkanir á notkun erlendra nafna en kveðið yrði á um að nöfn skuli rita í þjóðskrá með bókstöfum íslenska stafrófsins.
- Ákvæði um mannanafnanefnd og hlutverk hennar, sem og ákvæði um mannanafnaskrá.