Karlmaðurinn sem grunaður er um að hafa ráðist á Sanitu Brauna og ráðið henni bana í Vesturbæ Reykjavíkur í september hefur játað að hafa veist að Sanitu og meðal annars veitt henni höfuðhögg með slökkvitæki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Málið er enn til rannsóknar en hinn grunaði var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald 22. september á grundvelli rannsóknarhagsmuna og síðan hinn 29. september í fjögurra vikna langt gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna.
„Hinn grunaði hefur játað við yfirheyrslur að hafa veist að Sanitu og m.a. veitt henni höfuðhögg með slökkvitæki,“ segir í tilkynningu frá lögreglu. „Rannsókn málsins miðar vel og verður málið sent héraðssaksóknara, sem fer með ákæruvald í málinu, að rannsókn lokinni.“