Að minnsta kosti tólf létu lífið þegar grímuklæddir menn vopnaðir hríðskotarifflum réðust inn á ritstjórnarskrifstofur franska skopmyndablaðsins Charlie Hebdo rétt fyrir ellefu í morgun að íslenskum tíma. Að minnsta kosti tíu eru særðir.
Þetta eru mannskæðustu hryðjuverk í Frakklandi síðan 1835.
Í frönskum fjölmiðlum kemur fram að árásin virðist ekki hafa átt sér stað á handahófskenndum tíma heldur einmitt þegar ritstjórnarfundur var í gangi. Árásarmennirnir töluðu frönsku og virtust ekki vera með erlendan hreim.
Annar árásarmannana á að hafa öskrað: „Spámannsins hefur verið hefnt!“
Iris Edda Nowenstein hefur í morgun þýtt efni frá franska dagblaðinu Le Monde. Þar er meðal annars vitnað í teiknara af blaðinu:
„Ég var nýbúin að sækja dóttur mína á leikskólann, þegar við komum að byggingu blaðsins ógnuðu tveir vopnaðir menn með lambúshettur okkur af mikilli hörku,“ sagði hún.
Þeir vildu fara inn, fara upp. Ég sló inn aðgangskóðann. Þeir skutu á Wolinski, Cabu. Þetta varði í fimm mínútur. Ég hafði leitað skjóls undir skrifborði. Þeir töluðu fullkomna frönsku og sögðust vera frá Al Qaïda.“