María Rún Bjarnadóttir var í íslenska hópnum sem komst í hann krappan í Brighton eftir leik Íslands og Englands á EM í Frakklandi á mánudaginn.
Staðarblaðið The Argus greindi frá því að enskar fótboltabullur hafi grýtt flöskum í hópinn og að öryggisverðir hafi þurft að mynda í kringum þau hring til að verjast áganginum.
Sjá einnig: Sigur Íslands á Englandi í þætti Colbert: „Versta sem hefur komið fyrir England í fjóra daga“
María segir í samtali við Nútímann að þau hafi verið um 35 í heildina, íslenskir íbúar í Brighton, fjölskyldur þeirra frá Íslandi og fyrirmyndargestir frá Þórshöfn á Langanesi. „Svo bættist einn Svíi sem talaði fína íslensku í hópinn á ströndinni,“ segir hún.
Almennt var fólk bara frábærlega hresst og glaðlynt eins og venjulega hérna í Brighton, en það voru örfáir ógæfulegir einstaklingar á vappi í kringum okkur að reyna að stofna til vandræða og kalla ókvæðisorð að okkur.
Hún segir að krakkarnir hafi verið svo öflugir í „Áfram Ísland“-köllum og þau svo lítið til í leiðindi að þeir ógæfulegu hafi gefist upp á þeim.
„Margir komu til okkar til að óska Íslandi góðs gengis eða til að tala illa um enska landsliðið sem þeim fannst ömurlegt. Tveir báðu um leiðbeiningar um hvernig hægt væri að sækja um ríkisborgararétt á Íslandi,“ segir hún létt.
„Eftir þessi mögnuðu úrslit ákváðum við að bíða með að fara út af svæðinu, vildum ekki vera að troðast með krakkana í gegnum mannmergðina. Þá fóru einhverjir að kasta í okkur bjórglösum og öryggisverðir stukku til og mynduðu röð fyrir framan okkur, á milli þeirra sem voru að fara útaf svæðinu og okkar.“
Hún segir að þetta hafi ekki verið mörg glös. „En nóg í þeim því að mörg okkar fengu bjór á fötin sín. Verst var þetta fyrir strákinn okkar sem fékk tvö glös í andlitið og nokkuð af bjór yfir sig,“ segir hún.
„Hann meiddi sig ekkert, en laskaðist aðeins á sálinni þó það sé allt búið að jafna sig núna. Krakkarnir og ég urðum hálfskelkuð, ekki síst af því að þetta kom okkur svo mikið á óvart.“
María segir að öryggisverðirnir hafu verið ótrúlega leiðinlegir við hópinn. „Þeim fannst við ekki hafa átt að koma á svona stað til að horfa á svona leik nema að búast við einhverju veseni,“ segir hún.
„Ég færði honum friðarboðskapinn eins og mæður sem verða hræddar um börnin sín gera og fékk svo eftir mikið þras að hitta yfirmann sem var engu skárri og sagði að það væri auðvitað viss ögrun í því að vera svona ánægð með okkur. Þegar hann svo áttaði sig á að hann hefði farið yfir strikið bauð hann okkur miða til að horfa á næsta leik Íslands í stúkunni.“
Sjá einnig: Hvernig virkar rangstöðureglan í fótbolta? Venjulegt fólk reynir að útskýra
Fréttin í bæjarblaðinu kom Maríu á óvart en hún telur líklegt að hún komi frá fólkinu sem var að fylgjast með og þóttu öryggisverðirnir dónalegir.
„Enginn hefur haft samband við okkur eða íslendingafélagið hérna, enda um einangrað tilvik að ræða þó að það hafi sannarlega skemmt aðeins fyrir okkur sigurvímuna,“ segir hún.
„Ég gæti trúað að þetta fái athygli vegna þess að Brighton búar eru verulega miður sín yfir niðurstöðum kosninganna í síðustu viku. Hérna býr gríðarmikið af útlendingum, ekki síst frá ESB ríkjum og fólk hérna er virkilega miður sín yfir skilaboðunum sem því finnst felast í yfirlýsingum um að það eigi að loka landamærum Bretlands fyrir útlendingum.
Þetta kemur við fólk. Til dæmis eru bara fimm af 30 krökkum í bekk sonar míns sem eiga bara breska foreldra og í 30 barna bekk dóttur minnar eru fimm börn sem eiga þýsku að móðurmáli.“