Auglýsing

Mark Zuckerberg sér eftir að hafa látið undan þrýstingi frá Hvíta húsinu að ritskoða efni á Facebook

Forstjóri Meta, Mark Zuckerberg, segir að hann sjái eftir því að hafa látið undan því sem hann kallar þrýsting frá ríkisstjórn Biden til að „ritskoða“ efni á Facebook og Instagram á meðan kórónaveirufaraldurinn geisaði.

Í bréfi sem hann sendi til formanns nefndar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings sagði hann að ákveðið efni – þar á meðal húmor og háð – hefði verið fjarlægt árið 2021 undir þrýstingi frá háttsettum embættismönnum.

„Við tókum sumar ákvarðanir sem, með hliðsjón af reynslu og nýjum upplýsingum, við myndum ekki taka í dag.“

Hvíta húsið hefur varið aðgerðir sínar og sagt að það hafi hvatt til „ábyrgra aðgerða til að vernda lýðheilsu og öryggi.“

Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Faldi efni um Hunter Biden

Zuckerberg sagði einnig að fyrirtæki hans hafi tímabundið „minnkað“ sýnileika efnis sem tengdist syni Joe Biden, Hunter, fyrir forsetakosningarnar 2020, eftir að FBI varaði við „mögulegri rússneskri upplýsingaóreiðu.“

„Síðar kom í ljós að þetta efni var ekki hluti af slíkri aðgerð,“ sagði Zuckerberg og tók fram að það hefði ekki átt að fjarlægja það tímabundið.

Zuckerberg gaf ekki frekari upplýsingar um þær aðgerðir sem hann sér eftir á meðan covid faraldurinn stóð yfir. Á þeim tíma fjarlægði fyrirtæki hans færslur af ýmsum ástæðum. Þá sagði Zuckerberg að ákvarðanirnar hafi vissulega verið teknar af fyrirtæki hans, en að „þrýstingur frá stjórnvöldum hafi verið rangur.“

Hann hélt áfram: „Við tókum sumar ákvarðanir sem, með hliðsjón af reynslu og nýjum upplýsingum, við myndum ekki taka í dag.“

Reiðubúinn að standa í lappirnar

Zuckerberg sagði að hann og Meta væru reiðubúin til að „standa í lappirnar“ ef eitthvað svipað kæmi upp í framtíðinni.

Bréfi hans var beint til Jim Jordan, formanns dómsmálanefndar fulltrúadeildarinnar, sem hefur verið að rannsaka miðlun efnis á samfélagsmiðlum. Repúblikanar sögðu bréfið vera „stórsigur fyrir tjáningarfrelsið.“

Í yfirlýsingu sem gefin var út til vefsíðunnar Politico stóð Hvíta húsið við aðgerðir sínar.

Þar stóð: „Afstaða okkar hefur verið skýr og stöðug: Við teljum að tæknifyrirtæki og aðrir einkaaðilar ættu að taka mið af áhrifum aðgerða sinna á bandarísku þjóðina, á sama tíma og þeir taka sjálfstæðar ákvarðanir um þær upplýsingar sem þeir birta.“

Deilur um Hunter Biden

Athugasemdir Zuckerberg um Hunter Biden vísa til sögunnar um fartölvu sem sonur forsetans skildi eftir í viðgerð í Delaware – eins og fyrst var greint frá af New York Post.

Dagblaðið fullyrti að tölvupóstar sem fundust í tölvunni bentu til þess að viðskipti hans erlendis hefðu haft áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna á meðan faðir hans var varaforseti.

Forseti Bandaríkjanna og fjölskylda hans hafa neitað að hafa gert eitthvað rangt eða ólöglegt.

Sagan varð að þekktu umræðuefni á hægri væng stjórnmála í Bandaríkjunum og miklu deilumáli þar sem sumir samfélagsmiðlar ritskoðuðu efnið.

Zuckerberg sagði að sagan hafi verið „falin“ tímabundið á samfélagsmiðlum í hans eigu meðan hún fór í gegnum „staðreyndaskoðun“ – eftir viðvörun frá FBI um mögulega rússneska upplýsingaóreiðu, en „með hliðsjón af reynslunni ættum við ekki að hafa falið fréttir af þessu,“ skrifaði Zuckerberg.

„Við höfum breytt stefnu okkar og ferlum til að tryggja að þetta gerist ekki aftur.“

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing