Auglýsing

Markaðsvirði Snapchat hrundi um milljarða eftir harða gagnrýni frá Rihönnu: „Þið eruð ekki það heimsk“

Markaðsvirði Snapchat hrundi um tæpan milljarð dala, um 100 milljarða íslenskra króna, eftir að söngkonan Rihanna gagnrýndi samfélagsmiðilinn fyrir að hýsa auglýsingu sem virðist gera grín að heimilisofbeldi.

Auglýsingin var fyrir leik sam kallast „Would you rather“ eða „Hvort myndirðu frekar“ og sýnir myndir af Rihönnu og söngvaranum Chris Brown. Þá er notandinn spurður hvort hann myndi frekar vilja slá hana eða kýla hann.

Chris Brown var handtekinn árið 2009 fyrir að beita Rihönnu grófu ofbeldi. Hann þrýsti andlitinu á henni upp að hliðarrúðu í bílnum sínum þangað til hún fékk skurð og kýldi hana ítrekað í andlitið sem varð til þess að munnur hennar fylltist af blóði, sem dreifðist svo um bílinn.

Eftir það sagðist hann ætla að lemja hana í klessu þegar þau kæmu heim en svo hótaði hann að drepa hana. Hann stýrði bílnum með vinstri á meðan hann hélt áfram að kýla hana í andlitið með hægri, togaði hana svo til sín og beit hana í eyrað áður en hann stöðvaði bílinn og hélt áfram að kýla hana. Loks þrengdi hann að hálsi hennar, beit hana í fingurna og hélt svo áfram að þjarma að henni þangað til hún slapp frá honum og náði að kalla á hjálp. Hann var síðar dæmdur fyrir árásina.

Auglýsingin var tekin úr birtingu eftir að gagnrýnin kom fram og í yfirlýsingu frá Snapchat var hún sögð brjóta reglur appsins. Rihanna svaraði með yfirlýsingu á Instagram þar sem hún sagðist vilja skrifa mistökin á fáfræði en bætti við að hún viti að þau séu ekki það heimsk. „Þið eydduð peningum í að setja upp auglýsingu sem gerir viljandi lítið úr þolendum heimilisofbeldis og gerir grín að því.“

Verð á hlutabréfum í Snapchat féll um fimm prósent í kjölfarið. Eftir að Rihanna birti yfirlýsingu sína var haft eftir talsmanni Snapchat á vef The Guardian að auglýsingin væri „ógeðsleg“ og hefði aldrei átt að birtast á Snapchat. „Okkur þykur leitt að við gerðum þessi hræðilegu mistök, að sleppa auglýsingunni í gegnum skoðunarferlið okkar,“ sagði hann. „Við erum að rannsaka hvernig þetta gat gerst svo þetta gerist ekki aftur.“

Leikurinn hefur verið fjarlægður af Snapchat.

Snapchat hefur verið í talsverðum vandræðum undanfarið. Kylie Jenner birti neikvætt tíst um umdeilda nýja uppfærslu á appinu á dögunum sem olli því að markaðsvirðið féll um tugi milljarða.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing