Auglýsing

Meint innbrot í tölvu Sigmundar Davíðs rakið, bílstjórinn bað um að tölvan yrði skoðuð

Laugardaginn 10. september fór miðstjórnarfundur Framsóknar fram á Akureyri. Þar flutti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins ræðu og sagði að brotist hefði verið inn í tölvuna hans.

Upplýsingar vöktu athygli og var töluvert fjallað um hið meinta innbrot í fjölmiðlum næstu daga og einnig á Alþingi.

Málið komst aftur í fréttir í gær þegar Sigmundur Davíð birti færslu um málið á Facebook og vísar í gögn sem hann hefur undir höndum. Ríkisútvarpið óskaði eftir gögnunum og birti frétt um innihald þeirra í morgun.

Mikið hefur verið skrifað um málið sem teygir sig yfir nokkra mánuði. Nútímanum fannst því tilefni til að taka það saman og rekja það í tímaröð.

Föstudagur 1. apríl: Bílstjóri Sigmundar Davíðs biður um tölva hans verði skoðuð

Bílstjóri Sigmundar Davíðs setur sig í samband við starfsmenn rekstrarfélags Stjórnarráðsins, tveimur dögum fyrir þátt Kastljóss og Reykjavik Media um Panamaskjölin, og óskar eftir því að tölva Sigmundar Davís verði skoðuð vegna gruns um innbrot.

Tveir starfsmenn fara í framhaldinu á skrifstofu Sigmundar sem tjáði þeim að hann gruni að brotist hafi verið inn í fartölvuna hans. Nútíminn hefur ekki upplýsingar um hvort það hafi verið föstudaginn 1. apríl eða síðar.

Starfsmennirnir skoðuðu póstinn með leyfi Sigmundar og komust að þeirri niðurstöðu að líklega hefði viðhengið innihaldið þekkta tölvuveiru sem nefnist „Poison Ivy backdoor.“

Þrátt fyrir ítarlega leit að smiti og ummerkjum innbrots í tölvunni fannst þó ekkert. Starfsmenn rekstrarfélagsins benda ráðherra á að rétt væri að skipta um disk tölvunnar og setja Windows-stýrikerfið upp að nýju en hann vill ekki að það sé verði gert.

Laugardagur 10. september: Sigmundur Davíð greinir frá innbroti, í tölvu hans, á miðstjórnarfundi

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fer fram á Akureyri. Sigmundur Davíð, flytur ræðu þar sem hann segir meðal annars: „Ég veit að það var brotist inn í tölvuna hjá mér, ég lét skoða það.“

Mánudagur 12. september: Fjölmiðlar kanna málið, Stjórnarráðið staðfestir leit, Sigmundur Davíð útskýrir innbrotið 

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra segir á Alþingi að athuga þurfi ásakanir Sigmundar Davíðs og skoða hvort tilefni sé til að kalla saman þjóðaröryggisráð.

Jóhannes Þór Skúlason, þáverandi aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, segir í samtali við Nútímann að tæknimenn rekstrarfélags Stjórnarráðsins hafi farið yfir tölvubúnað ráðherra eftir að hann grunaði að brotist hefði verið inn í tölvu hans.

Hann sagði einnig að tæknimenn hefðu fundið „græjur til upplýsingaöflunar“, að málið hefði ekki verið kært til lögreglu heldur aðeins verið unnið innan Stjórnarráðsins þar sem það hafi sína eigin öryggisdeild sem embætti Ríkislögreglustjóra hafi umsjón með. Jóhannes Þór sagði einnig að tæknimenn hefðu ráðlagt Sigmundi að hætta að nota tölvuna sína.

Í skriflegu svari rekstrarfélags Stjórnarráðsins við fyrirspurn Nútímans kom fram að því hefði borist beiðni frá Sigmundi Davíð 1. apríl á þessu ári um að skoða tölvu hans vegna rökstudds grun hans um mögulegt innbrot. Við ítarlega leit starfsmanna rekstrarfélags Stjórnarráðsins fundust ekki staðfest ummerki um að innbrot hefði átt sér stað.

Sigmundur Davíð ræðir meðal annars við mbl.is og Bylgjuna síðdegis sama dag. Sagðist hann hafa fengið tölvupóst frá manni sem ekki hafi sent póstinn.

„Tölvupóstinum fylgdi viðhengi og þegar það var opnað var í því einhvers konar búnaður til þess að komast inn í tölvur. Ég kallaði til tæknimenn frá rekstrarfélagi Stjórnarráðsins og þeir gátu ekki séð hvort eða hversu miklum upplýsingum hafði verið náð úr tölvunni eða hvort það hafi tekist að virkja þetta. En þeir sögðu að það eina sem væri öruggt til þess að bregðast við þessu væri að skipta um harðan disk í tölvunni. Það væri ekki nóg að strauja hana bara,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Þriðjudagur 13. september: Ríkislögreglustjóri kannar málið 

Embætti ríkislögreglustjóra ákveður að skoða málið og ráðfærir sig meðal annars bæði við ríkissaksóknara og vararíkissaksóknara.

Ásgeir Karlsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra, hefur meðal annars samband við Sigríði Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara og spyr hana um lagalega skyldu ráðherra að tilkynna innbrot í tölvu sína. Nútíminn hefur ekki upplýsingar um hvort þetta hafi verið 13. september, daginn eftir eða næstu daga.

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, óskar í framhaldinu eftir fundi með starfsmönnum rekstrarfélags Stjórnarráðsins og á þeim fundi var lagt fram minnisblað rekstrarfélagsins um málið.

Eftir fund starfsmanna rekstrarfélagsins og starfsmanna ríkislögreglustjóra sendi Ásgeir níu spurningar til stjórnarráðsins. Þar var meðal annars spurt af hvaða gerð tölvan sé,  hvort hún sé í eigu ríkisins, hvar tölvan sé niðurkomin og hvort hún sé enn í notkun.

Miðvikudagur 14. september: Tölvan enn í vörslu Sigmundar Davíðs, hann ekki lengur forsætisráðherra

Rekstrarfélag Stjórnarráðsins svarar Ríkislögreglustjóra og greinir frá því að umrædd tölva sé í eigu forsætisráðuneytisins, hún hafi verið aukatölva sem Sigmundur Davíð hafi notað mest utan vinnustaðar sem forsætisráðherra.

Þennan var var tölvan enn í vörslu Sigmundar Davíðs en þá voru fimm mánuðir liðnir síðan hann sagði af sér embætti. Rekstrarfélagið segist þó ekki vita hvort tölvan sé enn í notkun. „Hún kom endrum eins í ráðuneytið en ekki alltaf nettengd við þær heimsóknir – vélin var aðallega í notkun utan okkar netkerfis,“ segir í svari rekstrarfélagsins.

Fimmtudagur 15. september: Framkvæmdastjóri Stjórnarráðsins vill ekki staðfesta útskýringar Sigmundar Davíðs

Framkvæmdastjóri rekstrarfélags Stjórnarráðsins vill ekki staðfesta útskýringar Sigmundar Davíðs á meintu innbroti í tölvu hans. Vísaði hann í svari sínu til Nútímans í takmörkun upplýsinga vegna almannahagsmuna þar sem gögnin geymi upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál. Ekki þótti tilefni til að tilkynna málið til lögreglu.

Föstudagur 16. september: Rannsókn hætt á meintu innbroti

Ríkislögreglustjóri sendir rekstrarfélagi Stjórnarráðsins bréf þar sem kemur fram að embættið hafi, að höfðu samráði við ríkissaksóknara, ákveðið að hætta rannsókn á meintu innbroti í tölvu Sigmundar Davíðs.

Fimmtudagur 13. október: Sigmundur Davíð fjallar um málið á Facebook, útskýrir málið

Sigmundur Davíð birtir bréfið frá ríkislögreglustjóra til rekstrarfélags Stjórnarráðsins á Facebook-síðu sinni ásamt færslu þar sem hann fjallar um málið. Í færslunni segir að frá því að hann hafi hafið þátttöku í stjórnmálum hafi hópur fólks talið það hlutverk sitt að reyna að gera flest það sem hann segi ótrúverðugt.

Þá vísar hann einnig í gögn sem hann hefur undir höndum er varða innbrotið, gögn frá ríkislögreglustjóra þar sem fram koma samskipti RLS og rekstrarfélags Stjórnarráðsins.

Segir Sigmundur Davíð að í umræddum gögnum komi fram að tölvupóstur sem sendur var á hann hafi verið látinn líta út fyrir að hann hefði komið frá öðrum en þeim sem sendi hann hafi líklega innihaldið þekkta tölvuveiru að nafni „Poison Ivy backdoor.“

Um þá veiru segir í bréfi frá rekstrarfélaginu: „Einkenni hennar eru þær að hún opnar bakdyr í tölvu viðkomandi fyrir aðgengi árásaraðila að tölvunni.“ Þó veiran hafi ekki fundist í tölvunni ef tekið fram að „Algengt er með slíkar veirur að árásaraðilinn hreinsar til eftir sjálfan sig að lokinni aðgerð.“

Í bréfinu sem Sigmundur Davíð birtir kemur fram að ríkislögreglustjóri hafi ákveðið að óska eftir frekari upplýsinga vegna meints innbrots í tölvu Sigmundar Davíðs í tilefni upplýsinga sem komu fram í fjölmiðlum.

Í bréfinu segir einnig að eftir að upplýsingar bárust frá rekstrarfélagi Stjórnarráðsins og lagt hafði verið á þær mat var það niðurstaða ríkislögreglustjóra, að höfðu samráði við ríkissaksóknara, að hætta rannsókn málsins. Ríkislögreglustjóri beinir þeim tilmælum til forsætisráðuneytisins að tölva Sigmundar Davíðs verði innkölluð og að öllum gögnum á innra drifi hennar verði eytt með tryggum hætti.

Jafnframt verði gengið úr skugga um að tryggt sé að upplýsingar er varða öryggis ríkisins hafi ekki komist í hendur óviðkomandi aðila og að ekki sé hætta á slíku. Þá fer ríkislögreglustjóri þess á leit við forsætisráðuneytið og rekstrarfélag Stjórnarráðsins að „hér eftir verði tafarlaust tilkynnt um slík innbrot og tilraunir til þeirra til greiningardeildar ríkislögreglustjóra,“ segir einnig í bréfinu.

Fréttastofa RÚV óskar eftir gögnunum sem Sigmundur Davíð vísar í á grundvelli upplýsingalaga, gögnum sem fyrrverandi forsætisráðherra birti ekki með færslunni.

Föstudagur 14. október: RÚV fær gögnin sem Sigmundur Davíð vísar í, lét ekki skipta um disk í tölvunni

RÚV greinir frá því að Sigmundur Davíð hafi ekki séð ástæðu til þess að skipt væri um disk fartölvunnar sem hann hafði undir höndum, né að Windows-stýrikerfið yrði sett upp að nýju eftir að grunur vaknaði um að tölvan hefði sýkt af þekktri tölvuveiru, þvert á ráðleggingar starfsmanna rekstrarfélags Stjórnarráðsins.

Ríkislögreglustjóri krafðist þess fimm mánuðum seinna að tölvan yrði innkölluð og öllum gögnum af innra drifi hennar eytt með tryggum hætti.

Þetta kemur fram í gögnunum sem RÚV óskaði eftir. Vísað er í upplýsingarnar sem þar koma fram á nokkrum stöðum í samantektinni hér að ofan.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing