Samkvæmt frétt RÚV.IS hefur rafmagnsverð hækkað um rúm þrettán prósent á síðustu tólf mánuðum, samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins. Þau segja það mestu hækkun frá árinu 2011 eða í þrettán ár. Raforkuverð hafi hækkað á sama tíma og verðbólga er á niðurleið.
Rafmagnsverð hækkaði um rúm þrettán prósent á síðustu tólf mánuðum, samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins. Þetta er mesta hækkun frá árinu 2011 eða í þrettán ár. Raforkuverð hefur hækkað á sama tíma og verðbólga er að lækka.
Ekki nóg rafmagn fyrir stækkandi samfélag
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins, segir þessa hækkun vera að endurspegla þá stöður að við höfum ekki framleitt nógu mikið af rafmagni fyrir sístækkandi samfélag. Kyrrstaða hafi verið rofin með afgreiðslu rammaáætlunar ásamt fleiru en þörf sé á því að horfa lengra fram í tímann í orkumálum.
„Vandamálið er það að það tekur að lágmarki tólf ár að undirbúa vatnsaflsvirkjun með leyfisveitingum og framkvæmdum þannig að það þarf að horfa mjög langt fram í tímann þegar kemur að orkumálum landsins. Það var því miður ekki gert um langt skeið og við erum að súpa seiðið af því núna,“ segir Sigurður.
Þetta er að versna og mun versna enn frekar
Sigurður segir einnig að nokkuð langt sé í að það komi ný raforka í kerfið. „Búrfellslundur, framkvæmdir þar eru að fara af stað þannig að orka þaðan kemur eftir tvö til þrjú ár,“ segir Sigurður sem nefnir jafnframt að um fjögur til fimm ár séu þangað til raforka tekur að berast frá nýrri Hvammsvirkjun.
Sigurður segir að hækkanirnar hafi áhrif bæði á heimili landsins og fyrirtæki en að verð á raforku til fyrirtækja hafi hækkað meira heldur en til heimila.
„Þannig að heimilin hafa verið í ákveðnu skjóli þangað til núna síðustu mánuðina. En við höfum áhyggjur af því að þetta sé að versna og muni versna enn frekar á næstu árum þangað til meiri raforka kemur inn á kerfið,“ segir Sigurður.
Hækkun um 32-34%
Samtök iðnaðarins greina hækkun á raforkuverði frá því raforkumarkaður tók til starfa í vor. Frá því í sumar hafi verð á raforkumarkaði hækkað um 32 til 34 prósent og telja Samtök iðnaðarins að búast megi við enn meiri hækkun í raforkuverði.
„Þetta kemur á sama tíma og það er mikil umræða um orkuskipti í samfélaginu og margir hafa fylgt því og fjárfest til dæmis í rafbílum og nota þar af leiðandi meira rafmagn heima fyrir og í fyrirtækjum heldur en áður og á sama tíma er þá raforkuverðið að hækka umtalsvert,“ segir Sigurður.