Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, hefur svarað fyrirspurnum Sigurjóns Ólafssonar, varabæjarfulltrúa Framsóknarflokksins, um ferðir starfsmanna bæjarins á tónleika Justins Timberlake. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Nútíminn fjallaði um málið um helgina.
Atburðarrásin sem varð til þess að Sigurjón spurði meðal annars hvort bæjarstjórinn teldi það samræmast siðareglum að þiggja tónleikamiða var eftirfarandi. Ármann sendi út tölvupóst þar sem hann sagði bæjarfulltrúunum frá frímiðunum. Ármann segir Sigurjón hafa svarað um hæl:
Frábærar fréttir og ég er klár ásamt maka.
Ármann segist þá hafa sent Sigurjóni eftirfarandi svar:
Sæll Sigurjón, mér finnst leiðinlegt að þurfa að segja þér að þetta á við bæjarfulltrúana eins og fram kemur í póstinum. Þar sem Birkir Jón er búinn að þiggja miðana þá fær varafulltrúi hans ekki miða.
Samkvæmt svari Ármanns í frétt Fréttablaðsins mættu allir bæjarfulltrúar á tónleikana. Þar með talinn Birkir Jón, flokksfélagi Sigurjóns.
Kópavogsbær fékk 30 frímiða á tónleika Justins Timberlake frá tónleikahaldaranum Senu. Varðandi siðareglur þá segir Ármann að samkomulagið hafi verið gert að hans frumkvæði, ekki Senu. „Í 6. grein siðareglna bæjarins segir að kjörnir bæjarfulltrúar og stjórnendur skuli tilkynna um allar gjafir, sem var gert í þessu tilviki, og að þeim sé óheimilt að þiggja gjafir ef líta megi á það sem endurgreiðslu fyrir greiða. Slíkt á ekki við í þessu tilviki.“