Auglýsing

Miðasala Björns Steinbekk átti að bjarga slæmum fjárhag Sónars og greiða niður skuldir

Ástæðan fyrir því að Björn Steinbekk stóð fyrir sölu á tæplega fimm hundruð miðum á leik Íslands og Frakklands í átta liða úrslitum á EM í sumar var slæm fjárhagsstaða tónlistarhátíðarinnar Sónar.

Þetta sagði Björn Steinbekk, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sónar, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Hann sagði að stjórnin hefði þarna séð tækifæri til að hagnast og tekið sameiginlega ákvörðun í von um að geta greitt niður skuldir.

Þetta kemur fram í umfjöllun um málið á Vísi. Ástæðan fyrir því að Björn kom fyrir dóm er sú að Gam Management ráðgjöf ehf., dótturfélag fjárfestingarfélagsins GAMMA, stefndi honum og Sónar Reykjavík ehf. vegna miðasölumálsins.

Eins og frægt er seldi Björn fjölmörgum Íslendingum miða á leik Íslands og Frakklands í átta liða úrslitum keppninnar. Miðarnir skiluðu sér hins vegar ekki til allra og er Björn ennþá að vinna í að endurgreiða þeim sem sátu eftir með sárt ennið. Þá hefur Björn verður kærður að minnsta kosti tvisvar fyrir að selja miða sem bárust ekki til kaupenda.

Erna Björk Häsler, stærsti eigandi Sónar Reykjavíkur ehf, og eiginkona Björns, staðfesti fyrir dómi í gær að stjórn félagsins hafi ákveðið í sameiningu að standa að sölu miða á landsleikinn. Björn hafi ekki staðið sjálfur að miðasölunni heldur verið í forsvari fyrir félagið.

Eldar Ástþórsson, sem var stjórnarmaður í félaginu á þeim tíma sem málið kom upp, sagðist hvorki hafa vitað til þess að slíkar hugmyndir hafi verið uppi né að þessi ákvörðun hafi verið tekin af stjórninni.

Sjá einnig: Björn Steinbekk kærir Eldar Ástþórsson fyrir að reyna að stela tónlistarhátíðinni Sónar 

Einkahlutafélagið Sónar Reykjavík kærði Eldar í október á síðasta ári fyrir að reyna að hagnýta sér upplýsingar sem hann fékk þegar hann var stjórnarmaður í Sónar Reykjavík til að sölsa undir sig tónlistarhátíðina Sónar hér á landi og viðskiptasambönd henni tengd. Kærunni var vísað frá.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing