Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa lítið séð til sólar í júnímánuði en færri sólarstundir hafa ekki mælst í mánuðinum í yfir 100 ár. Þrátt fyrir að flestir séu sammála um að það væri betra að fjölga þessum sólarstundum hefur þetta veður komið sér vel fyrir sólbaðsstofur og ferðaskrifstofur á höfuðborgarsvæðinu.
Sólbaðsstofur á höfuðborgarsvæðinu hafa verið óvenju mikið sóttar samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins í dag. Þar er rætt við starfsfólk í sólbaðsstofum á höfuðborgarsvæðinu.
„Já, já, það er brjálað að gera hjá okkur og mikið bókað. Það er eiginlega búið að vera þannig síðan í apríl. Það er bara ekkert sumar hérna, svo einfalt er það,“ segir Ásrún Þóra Sigurðardóttir, starfsmaður Stjörnusólar í Hafnarfirði við Fréttablaðið.
Starfsmenn hjá sólbaðsstofunum Smart og Sælan taka í sama streng í umfjöllun Fréttablaðsins og segja að mun meira sé að gera í ár heldur en síðasta sumar.
Í Morgunblaðinu er fjallað um álag á ferðaskrifstofum landsins en þar er haft eftir eigendum nokkurra ferðaskrifstofa að sólarlandaferðir séu að selja sig sjálfar þessa dagana. Lítið hafi reynt á hefðbundið markaðs- og sölustarf við að selja ferðir til sólarlanda undanfarnar vikur.
Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals-Útsýnar, segir í samtali við Morgunblaðið að fólk sem hafi ekki ætlað sér að fara til útlanda sé nú að taka skyndiákvörðun um utanlandsferð með stuttum fyrirvara. „Það eru alltaf leiðir til þess að koma landanum í sól,” segir Þórunn í Morgunblaðinu.