Meirihluti íbúa í Reykjavík er verulega ánægður gagnvart göngutörum í miðborginni. Þetta kemur fram í nýrri viðhorfskönnun Maskínu sem var gerð fyrir umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar.
Um 71 prósent svarenda í könnuninni sögðust jákvæðir gagnvart göngugötunum en aðeins um 11 prósent eru neikvæðir. Jákvæðnin eykst eftir því sem fólk fer oftar á göngugötusvæðið. Líkt og í síðustu könnun sem Maskína gerði eru íbúar í miðborginni og í Hlíðunum jákvæðastir allra.
Þá telja 77 prósent íbúa að göngugöturnar hafi jákvæð áhrif á mannlífið í borginni en 8 prósent telja að þær hafi neikvæð áhrif.
Eftirfarandi götum hefur verið breytt í göngugötur undanfarin ár: Laugavegi og Bankastræti, milli Vatnsstígs og Þingholtsstrætis. Skólavörðustíg milli Bergstaðastrætis og Laugavegar. Austurstræti, Veltusundi og Vallarstræti. Pósthússtræti, milli Kirkjustrætis og Hafnarstrætis.
Tæp 40 prósent sögðu að tímabil göngugatna, frá 1. maí til 1. október sé hæfilega langt, 30 prósent vilja lengja tímabilið og 30 prósent vilja stytta það. Um 25 prósent svarenda vilja göngugötur allt árið en það er töluverð hækkun frá því í fyrra þegar 12 prósent vildu það.
Fulltrúar í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar lýstu yfir ánægju með niðurstöður skýrslunnar og sögðu hana sýna stöðugleika milli ára og áframhaldandi ánægju meirihluta borgarbúa með fyrirkomulagið.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lét í ljós ánægju sína með niðurstöðurnar á Twitter í dag. Hún segir að göngugötur hafi haft virkilega jákvæð áhrif á mannlíf í borginni.
Niðurstöður úr nýrri skýrslu Maskínu um viðhorf til göngugatna eru mjög ánægjulegar. Aðeins 11% borgarbúa eru óánægðir með fyrirkomulagið. Niðurstöðurnar sýna afgerandi ánægju enda hafa göngugötur haft virkilega jákvæð áhrif á mannlíf í borginni ?♀️??♂️??♀️??♂️
— Hildur Björnsdóttir (@hildurbjoss) August 29, 2018