Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandarlags íslenskra skáta, segir mikil mildi að ekki hafi farið verr í gær þegar ópur franskra skáta var afar hætt kominn í Skaftá í gærkvöldi og annar hópur erlendra skáta lék háskaleik í Reynisfjöru síðdegis.
Skátarnir sem ákváðu að vaða Skaftá höfðu áður verið varaðir við af landvörðum Vatnajökulsþjóðgarðs í Laka þaðan sem þeir voru að koma. Landsbjörg, lögregla, sjúkraflutningamenn, Rauði krossinn, Landhelgisgæslan og fleiri komu að björgunaraðgerðum.
Undirbúningur fyrir stærsta alþjóðlega skátamótið fyrir unga skáta á aldrinum 18 til 25 ára stendur nú sem hæst. Skátarnir sem lentu í hremmingum í gær tengjast ekki mótinu og eru ekki skráðir þátttakendur.
Hermann segir að þessir atburðir undirstriki aftur á móti mikilvægi þess að brýnt verði fyrir ungu mótsgestunum að þau virði íslenska náttúru og þær hættur sem henni fylgja. Bandalag íslenskra skáta hefur þegar sent öllum þátttökulöndunum bréf til að undirstrika þetta.