Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nægu að snúast í gærkvöldi og í nótt samkvæmt dagbókinni hvorki meira né minna en tíu ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um annaðhvort akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna eða hvoru tveggja.
Í hverfi 104 var bifreið stöðvuð vegna gruns um að þar væri einstaklingur að aka undir áhrifum áfengis. Lögreglumenn gáfu ökumanni bifreiðarinnar stöðvunarmerki en því sinnti ekki ökumaðurinn og jók í stað hraðann og reyndi að stinga lögregluna af. Upphófst þá eftirför á eftir bifreiðinni. Ökumaðurinn ók á tímabili á um 160-170 kílómetra hraða á klukkustund. Þegar hann stöðvaði loksins bifreiðina þá reyndi hann að komast undan á hlaupum en var hlaupinn uppi af laganna vörðum.
Þegar ökumaðurinn var færður í járn kom í ljós að hann ar aðeins 15 ára gamall. Með honum í bifreiðinni voru tveir jafnaldrar hans og voru þeir, líkt og ökumaðurinn, færðir í hendur foreldra sinna og er mál þeirra unnið með barnavernd í umdæminu.
Þá komu flugeldar ansi mikið við sögu í dagbók lögreglunnar frá því í nótt en tilkynnt var um flugeldaslys í hverfi 105. Þar hafði flugeldur sprungið í hendi 12 ára drengs. Var hann með brunasár á hendi og andliti en ekki er vitað um alvarleika þeirra á þessari stundu.
Flugeld var kastað inn á skemmtistað í miðbænum en starfsmenn náðu að slökkva eldinn sem af honum hlaust. Eitthvað tjón varð inni á skemmtistaðnum en slökkviliðið sá um að reykræsta staðinn.
Þá var eitthvað um líkamsárásir í nótt en einn einstaklingur var meðal annars handtekinn fyrir að slá lögreglumann.
Tilkynnt um innbrot í heimahús í hverfi 200 og einnig kom tilkynning um eld í þremur bifreiðum í hverfi 200. Slökkvilið sá um að slökkva eldinn. Málið í rannsókn. Þá var tilkynnt um eld í blaðagámi í hverfi 201. Reyndist vera skottertur sem logaði í og voru þær við gáminn. Slökkvilið sá um að slökkva.