Það er mikið undir hjá Hatara í dag þegar önnur æfing þeirra fer fram á stóra sviðinu í Expo höllinni í Tel Aviv. Hatari tekur þátt í fyrra undanúrslitakvöldi keppninnar næstkomandi þriðjudagskvöld.
Sjá einnig: Íslendingar spá Hatara góðu gengi í Ísrael
Æfingatíminn sem hljómsveitin fær á sviðinu er af skornum skammti en alls 41 land keppir í söngvakeppninni í ár og því mikilvægt að nýta tíman á sviðinu sem best. Á vef RÚV segir að á æfingunni í dag muni listamönnunum gefast færi á því að renna atriðinu í gegn tvisvar sinnum.
„Síðasta æfingin gekk vonum framar samkvæmt aðstandendum en síðdegis í dag gefst dýrmætt tækifæri til að gera breytingar. Á milli æfinga leggjast starfsmenn RÚV og aðstandendur Hatara yfir hvað má betur fara í atriðinu sjálfu, myndvinnslu, ljósum, búningum og fleiru. Eins æfir hópurinn sjálfur á hótelinu milli hinna opinberu æfinga dansrútínur, sviðshreyfingar og söng. Næstkomandi mánudag verður atriðinu svo læst en eftir það má engu breyta lengur,“ segir á vef RÚV.
Komist Hatari áfram úr undankeppninni munu listamennirnir taka þátt í úrslitakeppninni sem fer fram laugardaginn 18. maí. Í augnablikinu er Hatara spáð 8. sæti í lokakeppninni í veðbönkum en sviðsæfingarnar hafa mikil áhrif á spánna. Það er því óhætt að segja að dagurinn í dag sé mikilvægur.