Í kvöld klukkan átta hefst mikilvægasta æfingin fyrir keppendur á fyrra undankvöldi Eurovision í Kænugarði í Úkraínu. Hópur dómara fylgist með æfingunni og gerir upp hug sinn en atkvæði þeirra vega helming á móti atkvæðum áhorfenda á morgun.
Svala Björgvinsdóttir stígur á svið og flytur lagið Paper í kvöld en á morgun stígur hún svo á svið á ný og flytur lagið á ný í beinni útsendingu. Þá greiða áhorfendur atkvæði og þá kemur í ljós hvort hún komist áfram á lokakvöld Eurovision á laugardag. Ísland hefur setið eftir með sárt ennið í síðustu tveimur keppnum.
Strangar reglur gilda um dómnefndirnar og atkvæðagreiðsluna. Samband Evrópskra sjónvarp- og útvarpsstöðva heldur utan um framkvæmdina en endurskoðunarfyrirtækið PwC hefur eftirlit með atkvæðagreiðslunni og sér til þess að reglum sé framfylgt.
Í íslensku dómnefndinni sitja Hildur Guðný Þórhallsdóttir, Helga Möller, Kristján Viðar Haraldsson, Pétur Örn Guðmundsson og Stefanía Svavarsdóttir. Smelltu hér til að skoða lista yfir alla dómarana.
Dómarar mega ekki hafa verið í dómnefndinni í tveimur síðustu keppnum, þeir verða að vera orðnir 16 ára þegar þeir greiða atkvæði sín, mega ekki vera starfsfólk sjónvarps- eða útvarpsstöðvanna sem taka þátt, verða að starfa í tónlistarbransanum, verða að vera ríkisborgarar þjóðarinnar sem þeir dæma fyrir. Loks mega dómararnir ekki tengjast lögum eða tónlistarmönnum í keppninni.
Alls eru dómararnir 210, fimm frá öllum 42 löndunum sem taka þátt. Yngstu dómararnir eru 16 ára gamlir og koma frá Makedóníu og Úkraínu. Elsti dómarinn er 76 ára og kemur frá Bretlandi. Meðalaldur dómara er 40 ára. 97 dómarar eru konur og 112 eru karlar.