Auglýsing

Mjög „óvenjulegt“ óveður á leiðinni: „Huga þarf að því að koma búfénaði í skjól“

Veðurstofa Íslands varar við óveðri á landinu næstu daga með gulum og appelsínugulum viðvörunum um allt land. Búast má við hríðarveðri í kvöld allt frá Ströndum til Suðausturlands. Veður kemur til með að versna allverulega síðdegis í dag og segir Veðurstofa Íslands að ferðalög geti verið varasöm og von sé á miklum kulda og vosbúð fyrir útivistarfólk.

„Ef spár rætast, er um að ræða óveður sem er mjög óvenjulegt á þessum árstíma, bæði hvað varðar vindstyrk og einnig lágt hitastig samfara talsverðri úrkomu.“

Óveðrið stendur fram á aðfaranótt föstudags

„Næstu daga er svo útlit fyrir norðan óveður á landinu með kalsa úrkomu norðan- og austanlands, ýmist rigningu, slyddu eða snjókomu, en lengst af úrkomulítið sunnantil. Samkvæmt nýjustu spám mun veðrið standa linnulítið fram á aðfaranótt föstudags, en skánar þá talsvert gangi spár eftir,“ segir í hugleiðum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Gular og appelsínugular viðvaranir um allt land.

Mjög óvenjulegt á þessum árstíma

„Ef spár rætast, er um að ræða óveður sem er mjög óvenjulegt á þessum árstíma, bæði hvað varðar vindstyrk og einnig lágt hitastig samfara talsverðri úrkomu. Huga þarf að lausamunum sem geta fokið. Ferðalög geta verið varasöm, sérílagi á ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi. Snjóþekja getur sest á vegi á Norður- og Austurlandi, einkum fjallvegi. Huga þarf að því að koma búfénaði í skjól. Útivistarfólki er bent á að fara yfir áætlanir sínar með tilliti til kulda og vosbúðar sem óveðrinu fylgir,“ segir í viðvörun Veðurstofu Íslands.

Í dag er spáð norðvestan og norðan 8-15 m/s og skúrir eða él, en yfirleitt þurrt sunnan- og vestantil. Hiti 2 til 10 stig, mildast syðst. Hvessir síðdegis og bætir í úrkomu, norðvestan hvassviðri eða stormur á Norður- og Austurlandi í kvöld með slyddu eða snjókomu. Kólnandi veður.

Norðan og norðvestan 15-23 á morgun. Slydda eða rigning nærri sjávarmáli á Norður- og Austurlandi, annars snjókoma. Hiti 0 til 4 stig. Úrkomulítið sunnantil og við vesturströndina með hita að 9 stigum yfir daginn.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á miðvikudag:

Norðvestan og norðan 13-20 m/s, hvassast suðaustantil. Víða slydda eða snjókoma, en rigning nærri sjávarmáli og úrkomulítið sunnanlands. Hiti 0 til 9 stig, mildast suðaustanlands.

Á fimmtudag:

Norðvestan og norðan 15-23, hvassast norðvestanlands. Úrkomulítið sunnantil, annars slydda, rigning eða snjókoma. Mikil úrkoma á Norðurlandi. Hiti breytist lítið.

Á föstudag:

Norðan 8-15 og skúrir eða él, en þurrt um landið suðvestanvert. Hiti 3 til 12 stig, mildast syðst

Á laugardag:

Norðvestlæg átt og rigning eða slydda með köflum, en þurrt á Suður- og Vesturlandi fram eftir degi. Hiti 2 til 12 stig, mildast vestanlands.



Á sunnudag:


Útlit fyrir breytilega átt og víða bjartviðri. Hlýnar í veðri.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing