Auglýsing

Mögulegar miltisbrandsgrafir í austurhluta Reykjavíkur: Draumasvæði uppbyggingar með Borgaralínu

Umhverfisstofnun hafa borist upplýsingar um að ein eða fleiri miltisbrandsgrafir séu mögulega staðsettar í Keldnalandi í austurhluta Reykjavíkur. Um er að ræða það svæði sem borgarstjórn hefur bundið hvað mestar vonir við að hefja uppbyggingu á þegar litið er til næstu ára. Þetta kemur fram í umsögn Umhverfisstofnunar á breytingartillögu á aðalskipulagi Reykjavíkur en Heimildin greindi fyrst frá.

Í umsögn stofnunarinnar kemur fram að hún sé að vinna í gerð gagnagrunns yfir menguð svæði „eða svæði þar sem grunur er um mengun“ og er Keldnalandið eitt þeirra svæða sem mögulega falla undir þá skilgreiningu: „Því er mikilvægt að þessir þættir séu skoðaðir vandlega við vinnslu tillögunnar og gætt sé varúðar.“ Þá undirstrikar Umhverfisstofnun að sveitarfélög skuli taka mið af þessari skráð við gerð skipulags.

Lausnin við gagnrýni á þéttingu byggðar

Þróun og uppbygging byggðar í Keldnalandi hefur verið á dagskrá Reykjavíkurborgar um eitthvert skeið og taka fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi borgarinnar mið af því en samkvæmt kynningu eru þar tækifæri til að efla byggð „og styrkja sjálfbæra borgarþróun á höfuðborgarsvæðinu öllu.“ Samfylkingin með Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar hefur litið þetta svæði hýru auga enda hafa fjölmargir gagnrýnt þéttingu byggðar með tilheyrandi umferðartöfum og almennum leiðindum.

En umferðartafir eiga svo gott sem að heyra sögunni til – eða svona næstum því – litið er á verklýsingu skipulagsgerðarinnar og umhverfismatsins sem Reykjavíkurborg gaf út. Þar kemur fram að „fyrirhuguð lega Borgarlínu um svæðið sé lykil forsenda þess að hægt verði að byggja upp ný borgarhverfi á svæðinu á vistvænan og hagkvæman hátt, sem gefur einnig möguleika á að lágmarka kolefnissspor uppbyggingarinnar.“

Þá segir einnig:

„Uppbygging nýrra íbúðarhverfi í landi Keldna er einnig lykil forsenda þess að efla
húsnæðismarkaðinn í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu á komandi árum og
liður í því stuðla að auknu framboði íbúða, ekki síst þeirra sem eru á viðráðanlegu
verði.“

Heimildin bendir á, og vitnar í gamla frétt Morgunblaðsins, að í desember árið 2004 hafi komið upp miltisbrandur í fjórum hrossum sem höfðu haldið til við eyðibýlið Sjónarhól á Vatnsleysuströnd. Þrjú þeirra hafi látist úr sjúkdómnum og því fjórða lógað. Hræ þeirra voru svo brennd til að varna frekara smiti og þá, að öllum líkindum, grafin í Keldnalandi.

HVAÐ ER MILTISBRANDUR?

Miltisbrandur er lífshættulegur sjúkdómur sem orsakast af bakteríu sem heitir *Bacillus anthracis*. Hún myndar mjög harðgerðar spórur sem geta lifað lengi í umhverfinu, jafnvel í jarðvegi, og getur smitast í menn og dýr. Sjúkdómurinn finnst helst í dýrum eins og nautgripum, kindum og hestum, en ef maður kemst í snertingu við mengaðan jarðveg, étur smitað kjöt eða andar að sér spórum, getur hann líka veikst.

Einkenni miltisbrands eru breytileg eftir því hvernig smitið er, en alvarlegustu tilfellin valda háum hita, verkjum og lífshættulegum sýkingum í lungum eða húð. Það er hægt að meðhöndla miltisbrand með sýklalyfjum ef hann greinist tímanlega, en það er samt mikilvægt að forðast smit, sérstaklega þar sem spórurnar geta verið mjög þrautseigar.

Sjúkdómurinn er ekki útbreiddur hér á landi, en getur komið upp í tengslum við ferðalög eða í tilteknum vinnuaðstæðum þar sem fólk kemst í snertingu við sýkt dýr eða umhverfi.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing