Auglýsing

Morgunblaðið segir að Katrínu hafi verið hótað, hafnaði viðræðum við Bjarna og Sigurð Inga

Vinstri græn hafa hafnað því að taka upp stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Ungliðar og grasrót VG munu hafa þrýst mikið á Katrínu Jakobsdóttir, formann flokksins, að taka ekki þátt í viðræðunum og bárust henni einnig hótanir úr þessum áttum um afsagnir úr trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag sem hefur þetta eftir heimildarmönnum sínum.

Katrín hafði gefið Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, afsvar um að hefja viðræður við hann og Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, um myndun þriggja flokka ríkisstjórnar þegar Bjarni kom til fundar við þingflokk sinn í gær.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins mun það hafa komið þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í opna skjöldu hversu afdráttarlaust afsvar Katrín gaf Bjarna um að hefja viðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk um stjórnarmyndun.

Þingmenn sem rætt var við í gær kváðust hafa upplýsingar um að það væri ákveðinn stuðningur, jafnvel þónokkur, í þingflokki VG við slíkar stjórnarmyndunarviðræður og sögðust þess vegna ekki skilja hið afdráttarlausa afsvar Katrínar.

Þar munu þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki hafa tekið með í reikninginn ungliðahreyfingar VG og grasrót flokksins og þær hótanir sem formanni flokksins hafa borist úr þeirra ranni, m.a. hótanir um afsagnir úr trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, ef VG ákvæði að hefja stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsónarflokk, líkt og kemur fram í Morgunblaðinu. 

Fullyrt er í blaðinu að slíkar hótanir og þrýstingur ungliðanna hafi haft mikil áhrif á afstöðu Katrínar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing