Þúsundir mótmæltu á Austurvelli í gær. Krafist var þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra myndi segja af sér og boðað hefur verið til mótmæla á ný klukkan 17 í dag.
Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Fréttablaðsins, náði eflaust einni af fréttamyndum ársins í gær af Vigdísi Hauksdóttur í Alþingishúsinu á meðan mótmælin stóðu yfir. Myndina má sjá hér fyrir neðan.
Sigmundur Davíð sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að samstarf ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins, hangi ekki á bláþræði.
Nei, samstarfið hangir ekki á bláþræði vegna umræðu núna frekar en umræðu áður sem oft hefur verið hörð. Samstarf hangir eingöngu á bláþræði ef menn vilja ekki starfa saman.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fundar með formönnum ríkisstjórnarflokkana í dag en hann kom til landsins í morgun. Þetta kemur fram á Vísi. Hann sagði í samtali við fréttastofu að staðan sé alvarleg og að „forseti þurfi að vera til staðar og þurfi að standa sína plikt.“
Mbl.is greinir frá því að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segi að hans fyrsta verk eftir að hann kemur til landsins í dag verði að ræða við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Hér má sjá fréttamynd ársins.
Drullið ykkur af lóðinni.
Posted by Vilhelm Gunnarsson on Mánudagur, 4. apríl 2016