Auglýsing

Mynd af skærbleikum og fjólubláum kartöflum vekur gríðarlega athygli

Mynd af fjólubláum og skærbleikum kartöflum sem áhugakona um garðyrkju birti á Facebook í vikunni hefur vakið gríðarlega mikla athygli. Frá því að Dagný Hermannsdóttir birti myndina hafa rúmlega 1.300 þúsund manns lækað hana. Hún segir viðbrögðin hafa verið ótrúleg.

Íslendingar eru líklega vanastir að sjá gular og rauðar kartöflur í matvöruverslunum, ekki skærbleikar og fjólubláar. „Þú sérð þetta oftast ekki í stórmörkuðum, þú sérð þetta frekar á nördasvæðum eins og bændamörkuðum,“ segir hún.

Það ríkir mikil gleði í kartöflugarðinum þegar uppskeran lætur dagsins ljós. „Þetta er eins og í fjársjóðsleit, maður er í kasti. Þær geta verið flekkóttar og allskonar í laginu og á litinn. Svo geta þær litið öðruvísi út að innan en að utan,“ segir Dagný.

Dagný hefur ásamt nokkrum öðrum ræktað kartöflur, eða yrki með erlendum fræjum síðustu ár. „Við erum að þróa ný kartöfluyrki, aðeins að boða fagnaðarerindið. Það er ekki almenn vitneskja að það sé hægt að rækta kartöflur af færjum.

Fjólubláu kartöflurnar á myndinni kallast blár Kongó og bleiku kartöflurnar Cerisa. Þær fyrrnefndu verða áfram bláar þegar búið er að sjóða þær en bleiku verða ljósari. „Flestum finnst þetta æðislegt en einstöku fólki finnst ekki aðlaðandi að borða bláan mat,“ segir Dagný og bætir við að það sé skemmtilegt að gera bláa kartöflumús.

Hægt verður að sjá kartöflur í hinum ýmsu litum á kartöflusýningu þann 5. október kl. 19.30 hjá Garðyrkjufélagi Íslands í Síðumúla 1. Hér má lesa meira um kartöflurækt með fræjum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing