Auglýsing

Mýs herja á íbúa Grindavíkur: „Þær voru nánast búnar með hálfan sófann minn“

Það er ekki nóg með að náttúruhamfarir hafi ógnað heimilum Grindvíkinga því mýs hafa nú gert sig heimakomnar í fjölmörgum fasteignum í bæjarfélaginu og það með tilheyrandi óþrifnaði og skemmdum á húsgögnum. Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa við Grindavík opnaði aðgengi að bæjarfélaginu þann 21. október síðastliðinn og voru fjölmargir íbúar sem tóku gleði sína á ný svo ekki sé talað um þá fjölmörgu fyrirtækjaeigendur sem höfðu beðið eftir því að geta bæði undirbúið og selt vörur sínar á svæðinu.

En fyrir einhverja íbúa varði gleðin ekki lengi því þegar í híbýli þeirra var komið blasti við ófögur sjón líkt og einn íbúi í Grindavík sem Nútíminn ræddi við lýsti fyrir miðlinum. Konan býr í raðhúsi í efri hverfum Grindavíkur, nálægt Þorbirni, og hafði ekki þorað að snúa tilbaka fyrr en yfirvöld hefðu lýst því yfir að það væri öruggt. Það gerði hún núna 21. október og við henni tók hálfétinn sófi og önnur húsgögn sem augljóslega var búið að naga.

Fékk næstum áfall

„Ég er eiginlega í áfalli. Ég kom hérna heim og þá sé ég eitthvað skrítið gat á sófanum mínum sem ég hafði ekki tekið eftir áður. Þegar ég fer að skoða þetta betur þá er búið að naga eða tæta nánast allt innvolsið úr sófanum og komin þrjú stór göt í hann,“ segir konan sem fékk næstum því hjartaáfall nokkrum mínútum seinna.

„Þegar ég var svona að fara yfir önnur herbergi og sjá hvort einhverjar aðrar skemmdir væru á húsnæðinu – því þarna var ég ekkert búin að átta mig á því að þetta væru mýs að verki – að þá skýst eitthvað lítið kvikindi undan rúminu og ég öskra yfir mig bókstaflega og börnum mínum dauðbrá. Þá sá ég litla mús sem greinilega hafði gert sig heimakomna þarna í íbúðinni og leið vel eða allt þar til ég kom heim,“ sagði konan og hló.

Þetta var þó ekki eina músin í húsinu því þær voru að minnsta kosti fjórar.

„Þær voru nánast búnar með hálfan sófann minn,“ sagði konan í samtali við Nútímann. Ein fannst við mikla leit og var henni náð með mannúðlegum aðferðum og svo sleppt aftur út í náttúruna. Myndin sem fylgir er af þeirri mús.

Tengist óróanum

Að sögn sérfræðinga má rekja þessa skyndilegu innrás nagdýra í íbúðarhúsnæði til nokkurra þátta sem tengjast óróanum á svæðinu. Fyrir það fyrsta er líklegt að óróinn og jarðskjálftarnir sjálfir hafi raskað náttúrulegum búsvæðum músa, sem hafa ýmist flúið jarðskjálftasvæðið eða leitað á ný svæði til að fá skjól.

Í Grindavík, þar sem mannfólk var horfið um tíma og lítið var um umferð, urðu til kjöraðstæður fyrir mýs sem annars myndu ekki stunda mannabústaði. Hús sem eru lengi yfirgefin í kyrrlátri íbúðarbyggð verða oft fyrir skaða af völdum smárra nagdýra þar sem þau leita sér bæði fæðu, felustaðar og hita.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing