Þau tímamót urðu frá og með deginum í dag að nærbuxur fyrir sjúklinga á Landspítalanum verða án klaufar. Í tilkynningu á innri vef Landspítalans kemur fram að ákvörðunin hafi verið tekið af sérstakri línnefnd í fyrra og að í framtíðinni verði nærbuxur svokallað „unisex model“.
„Hið sama hafa Danir og aðrar norrænar þjóðir gert. Ný sending af nærfatnaði er í samræmi við þessa ákvörðun,“ segir í fréttinni á innri vef Landspítalans.
Guðný Helga Herbertsdóttir, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans, játar að ákvörðunin sé í takt við nýja tíma. „Þetta er semsagt það sem aðrar norrænar þjóðir hafa gert í nærfatamálum. Gömlu nærfötunum verður hægt og rólega skipt út,“ segir hún.
Það er sérstök nefnd sem ákveður innkaup á líni. Þessi nefnd ákvað að taka þetta skref, að hætta með klaufarnar.
Spurð hvort klaufanotkun sjúklinga hafi verið könnuð sérstaklega áður en ákvörðunin var tekin segist Guðný Helga telja að það hafi ekki verið gert.