Stúlkan sem fannst látin á sunnudagskvöld hét Kolfinna Eldey Sigurðardóttir.
Hún var 10 ára og var búsett í Reykjavík.
Lögregla nafngreinir ekki föður hennar, sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa ráðið henni bana. Hann heitir Sigurður Fannar Þórsson og er 45 ára.
Sigurður Fannar var gær í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í gæsluvarðhald til þriðjudagsins 24. september að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á andláti dóttur sinnar um kvöldmatarleytið í fyrrakvöld. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er Sigurður Fannar grunaður um að hafa orðið dóttur sinni að bana.
Sigurður Fannar hringdi sjálfur í Neyðarlínuna til að komast í samband við lögreglu, en hann var í byrjun óljós um bæði atvik og staðsetningu. Eftir nokkra stund fékkst skýrari mynd af málinu og þá um leið voru viðbragðsaðilar sendir á staðinn, sem reyndist vera í hrauninu gegnt Vatnsskarðsnámu við Krýsuvíkurveg.
Þar var Sigurður Fannar handtekinn á sama tíma og leitað var að stúlkunni, en hún fannst skammt frá. Strax voru hafnar endurlífgunartilraunir, en þær báru því miður ekki árangur og var stúlkan úrskurðuð látin á vettvangi.