Sjónvarpsstöðin NBC hefur staðfest að hætt hefur verið við framleiðslu á fyrirhuguðum gamanþætti með Bill Cosby í aðalhlutverki. Þessar fréttar koma í kjölfarið á því að Cosby er sakaður um að hafa nauðgað fjölmörgum konum.
NBC tilkynnti áform sín um að framleiða nýjan gamanþátt með Cosby í aðalhlutverki í janúar á þessu ári. Þátturinn átti að fara í loftið næsta sumar eða haust og átti að vera framleiddur af Tom Werner, sem var framleiðandi The Cosby Show.
Forsvarsmenn NBC hafa ekki tjáð sig nánar um málið og ekki Cosby heldur.
Nútíminn hefur áður greint frá því að afþreyingarrisinn Netflix hefur frestað útgáfu á sérstöku uppistandi Bill Cosby í kjölfarið á því að fjöldi kvenna hefur stigið fram og sakað hann um að hafa nauðgað sér.
Í stuttri yfirlýsingu frá fyrirtækinu kom fram að uppistandinu, sem átti að vera í boði 27. nóvember, hafi verið frestað. Ekkert er sagt um hvort eða hvenær það verði í boði fyrir notendur efnisveitunnar. Talsmaður Netflix vildi ekki tjá sig meira um málið.
Þetta gerist í kjölfarið á því að fyrirsætan Janice Dickinson bættist í hóp þeirra kvenna sem sakað Cosby um að hafa nauðgað sér. Dickinson sagði í viðtali í þættinum Entertainment Tonight í vikunni að Cosby hafi nauðgað henni eftir fund sem þau áttu í Kaliforníu árið 1982.
Dickinson sagðist vilja segja sögu sína til hjálpa hinum konunum sem hafa stigið fram:
Hann gaf mér vín og pillu. Næsta morgun vaknaði ég ekki í náttfötunum mínum og mundi að áður en ég missti meðvitund beitti þessi maður mig kynferðislegu ofbeldi. Þetta gerðist fyrir mig og þetta er sönn saga. Ég trúi öllum hinum konunum.
Á meðal þeirra sem hafa sakað Bill Cosby um kynferðisofbeldi eru blaðakonan Joan Tarshis, sem sagði Cosby hafa nauðgað sér tvisvar þegar hún var að reyna að koma sér á framfæri sem leikkona á sínum yngri árum.
Þá birti listakonan Barbara Bowman grein í Washington Post í síðustu viku þar sem hún hafði sömu sögu að segja. Ásakanir um kynferðisofbeldi Cosby hafa oft komið fram í gegnum tíðina og árið 2006 greiddi hann einu fórnarlambi bætur til að forða málinu frá dómstólum.
Lögmaður Cosby sendi frá sér yfirlýsingu á dögunum þar sem kemur fram að Cosby ætli ekki að tjá sig um málið.